Metmánuður á Keflavíkurflugvelli og stutt bið í vopnaleit

Um 1,1 milljón farþega fór um Keflavíkurflugvöll í síðasta mánuði og 99 prósent þeirra sem þurftu í vopnaleit þurftu að bíða þar skemur en í 10 mínútur.

isavia oryggisleit

Júlí er vanalega annasamasti mánuðurinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og aldrei hafa farþegarnir verið fleiri en í nýliðnum mánuði þegar um 1,1 milljón farþega átti leið um flughöfnina. Það er viðbót um 22 prósent frá sama tíma í fyrra þegar farþegarnir voru 900.081.

Þrátt fyrir þessa miklu viðbót þá var meðalbiðtíminn í vopnaleitinni stuttur því 92 prósent farþeganna fór þar í gegn eftir minna en fimm mínútna bið og fyrir 99 prósent farþega var biðin styttri en 10 mínútur samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Í júlí í fyrra voru biðraðirnar aðeins lengri en núna en miðað við sumarið 2015 þá er um mjög mikla bætingu að ræða því var þá ástandið stundum erfitt og upp komu tímar þar sem mynduðust langar raðir. Það gerðist hins vegar ekki núna og ekki heldur í síðasta mánuði líkt og Túristi greindi frá.

Fleiri í júlí en allt árið 1997

Þessa fyrstu daga ágústmánaðar er umferðin Keflavíkurflugvöll líka mikil og til að mynda eru 111 brottfarir á dagskrá í dag. Á þess háttar degi gæti farþegafjöldinn náð um 40 þúsundum. En í heildina áttu 2 milljónir farþega leið um flughöfnina í júní og júlí sem er álíka fjöldi og allt árið 2010. Sé lítið ennþá lengra aftur má sjá að farþegafjöldinn í júlí síðastliðnum jafnast á við traffíkina allt árið 1997, árið sem Isavia var stofnað.

Í ár er gert ráð fyrir að farþega á Keflavíkurflugvelli verði tæplega 8,8 milljónir og þar af eru skiptifarþegar rétt rúmlega þriðjungur.