Nýtt hótel í Tryggvagötu mun heita Exeter House

Keahótelin opna á næsta ári 104 herbergja gististað í miðborginni en 75% hlutur í þessari þriðju stærstu hótelkeðju landsins var nýverið seldur til fjárfesta frá Alaska.

„Þetta verður fjögurra stjörnu „boutique“ hótel,“ segir Páll L. Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Keahótelanna, aðspurður um Exeter House, nýjan gististað fyrirtækisins sem opna mun á næsta ári. Hótelið rís á svokölluðum Tryggvagötureit og sækir nafn sitt til Exeter hússins sem þar stóð en var rifið í leyfisleysi í fyrra. Í framhaldinu setti Reykjavíkurborg það skilyrði fyrir áframhaldandi framkvæmdum á svæðinu að Exeterhúsið yrði endurbyggt og eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan þá verður sú bygging hluti af hinu nýja 104 herbergja hóteli.
Keahótelin eru þriðja stærsta hótelkeðja landsins með 624 herbergi á 8 hótelum sem staðsett eru á Akureyri, við Mývatn og í Reykjavík.

Líklega stærsta erlenda fjárfestingin í íslenskri ferðaþjónustu

Nýverið var gengið frá sölu á Keahótelum og kaupandinn er fjárfestingafélagið K Acquisitions ehf. Að baki því félagi stendur fasteignafélagið JL Properties með fjórðungshlut og bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors sem á helming en bæði þessu fyrirtæki eru frá Alaska í Bandaríkjunum. Íslenska fjárfestingarfélagið Tröllahvönn fer svo með 25% hlut en það var áður eigandi að 36% hlut í Keahótelum. Kaupverð fæst ekki uppgefið en í viðtali við Alaska Dispatch News í sumar sagði John Rubini, forstjóri JL Properties, að heildarkaupverðið yrði um 5,3 milljarðar króna (51 milljón dollara). Hafi það gengið eftir þá er þetta mjög líklega stærsta erlenda fjárfestingin í íslenskri ferðaþjónustu hingað til samkvæmt því sem Túristi kemst næst.
Þess má geta að í fyrrnefndu viðtali við Rubini sagði hann að fjárfesting hans næmi 6,5 milljónum dollara eða 680 milljónum íslenskra króna. Af því að dæma hefur um helmingur kaupverðisins verið fjármagnaður með lánsfé.

Sameiningar í hótelgeiranum?

Vís­bend­ing­ar eru um að fjár­fest­ing í hót­el­um verði tug­um millj­arða króna minni en fjár­fest­ar höfðu áformað samkvæmt úttekt Morgunblaðsins á íslenska hótelgeiranum sem birtist um helgina. Þar var haft eftir Helga S. Gunn­ars­syni, for­stjóra fast­eigna­fé­lags­ins Reg­ins, að hót­el­markaðurinn væri yf­ir­verðlagður og Garðar Hann­es Friðjóns­son, for­stjóri fast­eigna­fé­lags­ins Eik­ar, segir fjár­fest­a orðna var­kár­ari við út­lán til ferðageir­ans. John Rubini segist þó sjá tækifæri  í greininni því í tilkynningu, um kaup hans á fjórðungshlut í Keahótelunum, er haft eftir Rubini að hann telji fyrirtækið vera í sterkri stöðu til að vaxa og nýta þau tækifæri sem eru til sóknar og samlegðar í íslenskri ferðaþjónustu eins og það er orðað.