Óumflýjanlegt að miðaverð í Flugrútuna hækki

Útlit er fyrir að tekjur Isavia af rútustæðunum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar muni margfaldast á næsta ári í kjölfar nýlegs útboðs á aðstöðu fyrir hópferðabifreiðar.

Farmiði með Flugrútunni milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins kostar í dag 2.500 krónur og þar af nemur sérstakt farþegagjald til Isavia 173 krónum. Ríkissjóður fær svo 11 prósent af farmiðaverðinu í formi virðisaukaskatts og Kynnisferðir, sem reka Flugrútuna, halda því eftir tæpum 2.100 krónum af hverjum seldum miða.

Frá og með 1. mars nk. breytist dæmið hins vegar verulega því í nýafstöðnu útboði, á aðstöðu fyrir sætaferðir frá Keflavíkurflugvelli, buðust forsvarsmenn Kynnisferða til að greiða Isavia 41,2% af veltu Flugrútunnar fyrir áframhaldandi veru í og við flugstöðina. Það jafngildir rúmlega þúsund krónur af hverjum seldum miða sé miðað við núverandi verðskrá Flugrútunnar. Aðspurður um hvort sexfalt hærra gjald til Isavia muni ekki áhrif á farmiðaverð Flugrútunnar segir Kristján Daníelsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, að ekki hafi verið tekin ákvörðun um verðbreytingar þar sem ekki sé búið að ganga frá samningi við Isavia en að hækkun sé þó óumflýjanleg. „Kynnisferðir munu fara í vöruþróun samhliða nýjum samningi sem gerir þjónustuna í kringum Flugrútuna enn betri. Óumflýjanlegt er að miðaverð hækki og þar sem nýtt gjald mun færa Isavia talsverðar tekjur mun krafa okkar vera að slík gjaldtaka skili sér í betra umhverfi fyrir okkar viðskiptavini.“

Kynnisferðir buðu langhæst

Ekkert þeirra þriggja fyrirtækja sem tók þátt í ofangreindu útboði bauð eins hátt hlutfall af veltu og forsvarsmenn Kynnisferða gerðu. Næst hæsta tilboðið áttu Hópbílar sem buðu þriðjung af sinni veltu og Gray Line, sem rekur Airport Express, var tilbúið til að greiða fjórðung. Aðeins er pláss fyrir tvö rútufyrirtæki beint fyrir framan Leifsstöð og því útlit fyrir að Flugrútan og Hópbílar muni fá aðstöðuna en síðarnefnda fyrirtækið hefur ekki áður boðið upp á sætaferðir frá Keflavíkurflugvelli. Það hefur hins vegar Gray Line gert um árabil og í viðtali við Morgunblaðið, í lok júlí, sagði Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Gray Line, að fyrirtækið muni halda sínu striki og bjóða áfram upp á reglulegar ferðir jafnvel þó rútur þess geti ekki lagt beint fyrir utan flugstöðina eins og í dag heldur í stæðum fyrir hópferðabíla handan við skammtímabílastæðið líkt og Strætó gerir.

Sjöfalt hærri tekjur

Í útboðsgögnum Isavia og Ríkiskaupa kemur fram að í fyrra hafi rétt um 602 þúsund farþegar nýtt sér sætaferðir til og frá Leifsstöð. Þá var farþegagjaldið 130 krónur og tekjur Isavia af akstrinum hafa verið um 78 milljónir. Í ár er gert ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi um nærri fjórðung og á sama tíma hefur utanferðum Íslendinga fjölgað verulega. Það má því gera ráð fyrir að farþegum í flugrútunum fjölgi í ár og ef aukningin nemur fimmtungi þá hækka farþegatekjur Isavia af sætaferðunum upp í rétt rúmlega 100 milljónir. Breytingin verður hins vegar veruleg þegar byrjað verður að rukka samkvæmt niðurstöðum útboðsins, í byrjun mars, því þá sjöfaldast tekjur Isavia af rútustæðunum og fara upp í nærri 700 milljónir á ársgrundvelli samkvæmt útreikningum Túrista. Þeir byggja á því að farþegum í áætlunarferðunum fjölgi um tíund árið 2018 og verði tæplega 800 þúsund og farmiðaverð haldist óbreytt.

Samkvæmt heimildum Túrista eru Kynnisferðir með um 70% markaðshlutdeild í þessum sætaferðum í dag sem þýðir að velta fyrirtækisins af Flugrútunni verður um 1,2 milljarðar án virðisaukaskatts á næsta ári. Þar af fengi Isavia rúmlega hálfan milljarð í sinn hlut. Tekjur Hópbíla af 30% hlutdeild yrðu svo nærri 540 milljónir og þar af fengi Isavia um 180 milljónir eða samtals um 700 milljónir. Við upphæðina bætast svo 11 milljónir fyrir leigu á rútustæðum og einnig verða fyrirtækin tvö að greiða aukalega fyrir afnot af sölubásum inn í komusal flugstöðvarinnar.

Skuldbundir til að greiða nærri þrjú hundruð milljónir

Veltan hjá Kynnisferðum og Hópbílum gæti þó orðið nokkru hærra ef farmiðaverðið hækkar líkt og er í kortunum miðað við ofannefnt svar framkvæmdastjóra Kynnisferða. Tekjurnar gætur líka orðið umtalsvert lægri því eins og fyrr segir þá hafa forsvarsmenn Gray Line boðað áframhald á áætlunarferðum sínum milli Holtagarða og Keflavíkurflugvallar og það gæti dregið töluvert úr umsvifum Kynnisferða og Hópbíla. Einnig býður Strætó upp á reglulegar ferðir að flugstöðinni en hvorki Gray Line né Strætó þurfa að greiða hátt veltugjald líkt og Kynnisferðir og Hópbílar hafa skuldbundið sig til að gera.