Verk Ragnars það fyrsta sem blasir við í Bergen

Ný flugstöð var tekin í notkun í Bergen í síðustu viku og um leið var listaverkið „Bergen? This Must Be The Place”, eftir Ragnar Kjartansson, vígt.

Verkið er 5,5 metrar á hæð og samanstendur af gulum bókstöfum sem mynda borgarheitið sjálft auk spurningamerkis. Þetta risastóra verk Ragnars stendur í hlíð fyrir utan flugstöðina og blasir við öllum þeim sem koma út úr byggingunni en sést líka vel innan úr henni. En allt frá því að verk Ragnars bar sigur úr býtum í samkeppni um útilistarverk við hina nýja flugstöð hefur skapast töluverð umræða um það í Bergen og sýnist sitt hverjum. Flugvallarstjórinn sjálfur er hins vegar hæst ánægður og segir það setja ferðalög í kímið samhengi en veki fólk líka til umhugsunar um það að vera á ferðinni.

Þeir sem vilja skoða verk Ragnars geta flogið beint frá Keflavíkurflugvelli til Bergen með bæði Icelandair og Norwegian. En þess má geta að í fyrra fór Keflavíkurflugvöllur upp fyrir flugvöllinn í Flesland á listanum yfir stærstu flughafnir Norðurlanda.