20 bestu ferðamannaborgirnar

Að mati lesenda ferðatímaritsins Conde Nast Traveller eru þetta þær borgir sem skemmtilegast er heim að sækja. Frá Keflavíkuflugvelli er flogið beint til 12 af borgunum 20.

Ferðamaður á ystu nöf í París, borginni sem er númer 2 á lista lesenda Conde Nast Traveller. Mynd: Valentin Antonini / Unsplash

Ferðapressan er uppfull af alls kyns listum og stundum kemst Ísland eða íslenskir staðir á blað. Það var þó ekki raunin í þetta skiptið þegar breska útgáfa Conde Nast Traveller bað lesendur sína um að nefna sínar uppáhalds ferðamannaborgir. En eins og sjá má á listanum þá geta farþegar á Keflavíkurflugvelli flogið beint til meirihluta borganna.

20 bestu ferðamannaborgirnar:

 1. New York – Þangað fljúga Delta, Icelandair og WOW allt árið um kring og frá og næsta sumar bætist United Airlines við.
 2. París – Icelandair og WOW og Transavia á sumrin.
 3. Róm – Ekkert flug frá Íslandi eftir að Vueling og WOW gáfu beint flug héðan til Rómar upp á bátinn.
 4. Feneyjar – Áætlunarferðir til Marco Polo flugvallar hafa aldrei verið í boði frá Keflavíkurflugvelli.
 5. Barcelona – Allt árið fara þotur Norwegian, Vueling og WOW milli Íslands og Barcelona. Á sumrin bætist Icelandair við.
 6. Amsterdam – Icelandair og WOW allt árið til Schiphol.
 7. Höfðaborg – Það tæki nærri 15 tíma að fljúga frá Keflavíkurflugvelli til Höfðaborgar í S-Afríku og ekkert flugfélag hefur lagt í svo langt ferðalag.
 8. Berlín – Airberlin og WOW hafa verið ein um flugið héðan til höfuðborgar Berlínar en nú bætist Icelandair í hópinn og á sumrin sinni Eurowings líka flugleiðinni.
 9. Sydney – Eins og gefur að skilja verður ekki flogið héðan beint til Sydney í Ástralíu
 10. Vancouver – Kanadíska borgin hefur verið hluti af sumaráætlun Icelandair síðustu ár en í fyrsta skipti í vetur fljúga þotur Icelandair þangað í hverri viku.
 11. Vínarborg – Samgöngurnar til höfuðborgar Austurríkis hafa takmarkast við næturflug á vegum FlyNiki og Austrian á sumrin.
 12. Melbourne – Ástralskir áfangastaðir munu seint bætast við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar.
 13. Dubaí – Emirates, flugfélag heimamanna í Dubai, hefur verið í sókn á hinum Norðurlöndunum en ennþá látið Ísland vera. Og íslensku flugfélögin hafa að sama skapi ekki sett stefnuna á Dubaí.
 14. Madríd – Norwegian flýgur núna allt árið hingað frá Madríd en fær samkeppni frá Iberia Express og Icelandair á sumrin.
 15. Tókíó – Hugsanleg verður höfuðborg Japan komin á kortið hjá Icelandair eða WOW á næsta ári.
 16. Dublin – WOW flýgur til Dublin allt árið.
 17. Chicago –  Icelandair hóf að fljúga til Chicago í hittifyrra eftir 28 ára hlé og WOW bætti svo borginni við sitt leiðakerfi í ár.
 18. Lissabon – Leiguflug ferðaskrifstofanna til Lissabon hefur mælst vel fyrir en ennþá er bið eftir reglulegum ferðum héðan til borgarinnar.
 19. Los Angeles – Annars af tveimur áfangastöðum WOW í Kaliforníu.
 20. Toronto – Til fjölmennustu borgar Kanada fljúga bæði íslensku flugfélögin og Air Canada býður upp á Íslandsflug þaðan á sumrin.

Með leitarvél Momondo má gera einfaldan samanburð á flugmiðum til borganna.