Aldrei eins margir Íslendingar til útlanda í ágústmánuði

Ferðagleðin er mikil þessi misserin og í dag hafa fleiri Íslendingar flogið frá Keflavíkurflugvelli og allt árið 2014. Árið í ár á 5 fulltrúa á listanum yfir þá 10 mánuði sem flestir hafa nýtt til ferðalaga út í heim.

Nýliðinn ágúst er í sjötta sæti á listanum yfir þá mánuði sem Íslendingar hafa ferðast mest til útlanda. Mynd: Isavia

Í ágúst flugu 53.732 íslenskir farþegar út í heim og er það aukning um fimmtung frá sama tíma í fyrra. Viðbótin fyrstu átta mánuði ársins er aðeins lægri eða 15% en í heildina höfðu rúmlega 405 þúsund Íslendingar farið í gegnum vopnaleitina á Keflavíkurflugvelli frá ársbyrjun og fram til loka síðasta mánaðar. Það er ögn meiri fjöldi en allt árið 2014 þegar akkúrat 400 þúsund Íslendingar fóru um Leifsstöð. Tölurnar byggja á talningu Ferðamálastofu.

Hin mikla ferðagleði landans einskorðast ekki aðeins við nýliðinn ágúst því alls hafa fimm mánuður þessa árs komist inn á listann yfir 10 stærstu ferðamánuði Íslendinga á þessari öld. Og miðað við hið mikla framboð sem verður á flugi í vetur má búast við að margir verði á faraldsfæti næstu misseri.