Beint til Zurich í allan vetur

Skíðaáhugafólk á leið í Alpana hefur úr meiru að moða í vetur því fjölmennasta borg Sviss er nú heilsársáfangastaður hjá Icelandair.

Mynd: © Zürich Tourism

Hingað til hefur Icelandair gert hlé á áætlunarferðum sínum til Zurich yfir vetrarmánuðina en á því verður nú breyting því í allan vetur mun flugfélagið bjóða upp á ferðir til stærstu borgar Sviss alla fimmtudaga og sunnudaga. Þar með fjölgar valkostunum fyrir þá sem vilja fljúga beint til Alpanna í vetur en frá flugvellinum í Zurich eru almenningssamgöngur upp í helstu skíðasvæði Svisslendinga með miklum ágætum. Þaðan er til dæmis hægt að ná lest upp í Saas Fe og Zermatt og jafnvel til Verbier þó vissulega sé styttra þangað frá Genf. Hins vegar er leggjast flugsamgöngurnar milli Genfar og Íslands af yfir veturinn og hlé er gert á ferðunum til Basel frá lokum október fram í byrjun febrúar.

Framboð á flugi héðan til flugvalla í nágrenni við Alpanna hefur verið lítið en WOW air fer þó vikulega til Salzburg í Austurríki og Icelandair flýgur daglega til Munchen en þýska borgin er ágætlega staðsett fyrir skíðaáhugafólk. Auk þess bjóða ferðaskrifstofur upp á alls kyns skíðaferðir og í þeim er oft farið með leiguflugi Icelandair til Verona á Ítalíu. Hið nýja vetrarflug til Zurich er því vafalítið kærkomin viðbót við flóruna en samkvæmt athugun Túrista kosta ódýrustu farmiðarnir rétt um 40 þúsund krónur, báðar leiðir. Hjá Icelandair geta farþegar nýtt farangursheimildina fyrir skíði og þurfa þá ekki að borga aukalega undir þau svo lengi sem allur annar búnaður kemst fyrir í handfarangri.

Beint flug til Zurich kemur þó ekki bara íslenskum skíðaáhugamönnum vel því borgin sjálf er skemmtileg heim að sækja þó verðlagið sé í hærri kantinu. Bæjarstaðið er glæsilegt, gamli miðaldarbærinn er fallegur og vel varðveittur og endurnýjun iðnaðarsvæðisins í vesturhluta borgarinnar er mjög forvitnileg og vel lukkuð.

SJÁ VEGVÍSI FYRIR ZURICH