Bíða með Tyrklandsferðir frá Íslandi í eitt ár í viðbót

Ferðaskrifstofan Nazar gerði hlé á starfsemi sinni hér á landi í ár og segir framkvæmdastjórinn að nú sé ætlunin að taka upp þráðinn á ný fyrir sumarið 2019. Áform Nazar um að bjóða Íslendingum upp á ferðir til Rhodos gengu ekki upp.

nazar c

Sumarið 2014 hóf norræna ferðaskrifstofan Nazar að selja sólarlandaferðir héðan til Antalya í Tyrklandi og það ár nýttu á þriðja þúsund Íslendingar sér þennan nýja valkost og ennþá fleiri árið eftir. Hrina hryðjuverka og tilraun til valdaráns í landinu urðu hins vegar til þess að eftirspurn eftir Tyrklandsferðum snarminnkaði í fyrra. Í kjölfarið dró Nazar saman seglin og aflýsti til að mynda öllum ferðum héðan seinni hluta síðasta sumars og bauð ekki upp á neinar reisur frá Íslandi í ár.
Ætlunin var hins vegar að taka upp þráðinn næsta sumar og bjóða Íslendingum upp á sólarlandaferðir til grísku eyjunnar Rhodos. Hins vegar hefur ekki tekist að finna flugfélag til að sinna fluginu og því verður ekkert úr þeim áformum að sögn Kemal Yamanlar, framkvæmdastjóra Nazar.

Ástandið hefur batnað

Aðspurður um framhald á Tyrklandsferðum frá Íslandi segir Yamanlar að í dag sé ætlunin að hefja starfsemi hér á landi á ný fyrir sumarið 2019 og þá með sölu sólarlandaferða á strendurnar í nágrenni við Antalya. „Á hinum Norðurlöndunum og stærstum hluta Evrópu er eftirspurnin eftir ferðum til Tyrklands að verða söm og áður en við munum bíða með brottfarir frá Íslandi í eitt ár í viðbót.“ Yamanlar bætir því við að ástandið í Tyrklandi hafi verið með kyrrum kjörum frá síðustu áramótum og engin hryðjuverk framin sem hafi haft áhrif á ferðaþjónustuna. „Þar með kemst jafnvægi á hlutina en það vegur líka þungt að Spánn er orðinn mjög dýr áfangastaður. Fjöldi fyrirspurna frá Íslendingum síðastliðið ár segir okkur að áhuginn er til staðar og við söknum auðvitað íslensku gestanna.“