Brátt geturðu farið um Stokkhólm á rafmagnshjóli

5 þúsund rafknúnum reiðhjólum verður dreift um sænsku höfuðborgina á næsta ári svo fólk komist hjólandi um borgarlandið án þess að ofreyna sig. Leigan í Stokkhólmi er mun ódýrari en í Reykjavík.

Það verður auðveldara að hjóla um Stokkhólm á næsta ári. Mynd: Henrik Trygg/Visit Stockholm

Síðustu ár hafa yfirvöld í fjöldamörgum borgum komið upp á reiðhjólastöndum þar sem heimamönnum og ferðafólki stendur til boða að leigja sér reiðhjól í nokkra tíma eða jafnvel heilan dag. Í Stokkhólmi hefur þessi þjónusta verið í boði um árabil í miðborginni næsta vor verður núverandi hjólaflota skipt út fyrir 5 þúsund rafmagnshjól og verða þau ekki aðeins í miðborginni heldur líka í úthverfunum samkvæmt frétt Dagens Nyheter. Borgarfulltrúi Umhverfisflokksins segir þetta vera lið í að bjóða upp á sjálfbærar samgöngur um sænsku höfuðborgina en í dag eru þar aðeins fimmtán hundruð leiguhjól en fjöldinn mun s.s. ríflega þrefaldast á næsta ári. Rafmagnshjólin ná allt að 25 kílómetra hraða en þeir sem vilja fara hraðar verða þá sjálfir að sjá stíga á pedalana.

Það er auglýsingafyrirtækið JC Decaux sem mun reka hjólaleiguna en þetta sama fyrirtækið sagði einmitt nýverið upp samningi sínum við Reykjavíkurborg um rekstur strætóskýlanna í borginni og eins hefur fyrirtækið verið ósátt við auglýsingar í kringum hjólastöðvarnar í borginni sem nýverið voru teknar í notkun. Talsmaður JC Decaux í Svíþjóð segir að hjólaleigan verði ekki fjármögnum með auglýsingum við hjólagrindur heldur munu viðskiptavinirnir sjálfir greiða fyrir notkunina. Þannig mun dagurinn kosta 19 sænskar (250 íslenskar) og árskort verður á 250 sænskar (3300 kr). Til samanburðar kostar hálftíma leiga á WOW hjólunum í Reykjavík 350 krónur og árskortið 16.900 krónur eða sex sinnum meira en í Stokkhólmi. Hjólavertíðin í sænsku borginni mun þó aðeins standa yfir frá vori og fram í vetrarbyrjun.


Frá fimmtudegi til sunnudags er hægt að fá ódýrara far með Arlanda Express hraðlestinni frá flugvellinum og niður í bæ. Sjá hér