Dregur úr væntingum þrátt fyrir aukið Íslandsflug

Á sama tíma og stærstu flugfélög Bretlands bæta við ferðum til Keflavíkurflugvallar þá verða breskir ferðasalar svartsýnni á sölu Íslandsferða. Skýringin á misræminu liggur mögulega í verðlagi hér á landi segir Inga Hlín Pálsdóttir hjá Íslandsstofu.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Síðustu mánuði hefur dregið úr væntingum forsvarsmanna erlendra ferðaskrifstofa til sölu Íslandsferða. Þetta sýna niðurstöður kannana Íslandsstofu meðal söluaðila sem gerðar voru í desember sl. og aftur nú í júní. Á þessu hálfs árs tímabili lækkuðu væntingar breskra ferðasala einna mest eða um ríflega fjórðung. Það er meðal annars athyglisvert í ljósi þess að forsvarsmenn tveggja stærstu flugfélaga Bretlands ætla að bæta í Íslandsflugið í vetur. Þannig hefur British Airways tilkynnt að félagið muni fjölga ferðunum hingað frá London úr 7 í 16 ferðum í viku og flugáætlun easyJet fyrir Ísland er um fimmtungi umsvifameira núna en fyrir ári síðan. En breska lággjaldaflugfélagið flýgur hingað frá 8 breskum flughöfnum fyrir vetrarmánuðina.

Aðspurð um ástæður þessara ólíku væntinga segir Inga Hlín Pálsdóttir, forstöðurmaður hjá Íslandsstofu, að ekki sé hægt að gefa sér neitt í því en mögulega megi horfa til þess að flugverð er ekki eins bundið verðlagi hér á landi. „Ferðaheildsalar eru með fleiri þjónustuþætti í vörunni sinni sem eru tengdir verðlagi á Íslandi og hefur því líklega meiri áhrif á sölu þeirra og væntingar.“

Þrátt fyrir minni bjartsýni um eftirspurn eftir ferðalögum til Íslands þá sýndi könnun Íslandsstofu að um helmingur breskra ferðasala segist upplifa svipaða eða aukna sölu á ferðum til Íslands það sem eftir lifir árs og út veturinn. Meðal allra þátttakenda í könnuninni var hlutfallið hærra eða 73% en stöðugustu og mestu væntingarnar voru meðal svarenda í Norður-Ameríku því 93% þeirra segja söluna hafa aukist eða vera svipaða og áður.

Bretum fækkar áfram

Sé litið til talningar Ferðamálastofu á fjölda þeirra útlendinga sem flugu frá landinu í sumar þá er kannski ástæða fyrir aukinni svartsýnni meðal breskra ferðafrömuða á Íslandsferðir. Brottförum Breta fækkaði nefnilega um 14% síðustu fjóra mánuði og í ágúst nam samdrátturinn nærri 8 af hundraði. Það gerðist það þrátt fyrir að flugumferð milli Íslands og Bretlands hafi aukist um rúmlega fimmtung í síðasta mánuði samkvæmt talningu Túrista. Í ágúst fækkaði líka ferðum Frakka, Norðmanna og Svía frá Keflavíkurflugveli jafnvel þó flugsamgöngurnar hafi aukist frá því í ágúst í fyrra. Skýringin gæti legið í minni sætanýtingu og/eða fjölgun skiptifarþega .