Epal og Ísey í Flugstöð Leifs Eiríkssonar

Skiptifarþegar á Keflavíkurflugvelli geta í vetur keypt sér íslenska hönnun og skyr á milli flugferða.

kef farthegar
Mynd: Isavia

Þriðji hver farþegi í Flugstöð Leifs Eiríkssonar telst vera tengifarþegi og stoppa þeir að jafnaði í flugstöðinni í um klukkustund áður en þeir halda ferð sinni áfram milli Evrópu og N-Ameríku. Á biðsvæði fyrir þessa farþega munu Epal og Ísey opna verslanir í svokölluðu „pop-up“ rými sem Isavia býður út í nokkra mánuði í einu. Auglýst var eftir aðilum til að reka veitingasölu eða sérverslun frá byrjun desember til loka maí og voru Epal og Ísey skyr með bestu umsóknirnar að mati valnefndar samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu. „Við mat valnefndar á umsóknum var sérstaklega hugað að hraðri þjónustu þar sem skiptifarþegar dvelja að meðaltali í um 60 mínútur í flugstöðinni. Í valnefnd sátu einn fulltrúi frá Isavia og tveir utanaðkomandi aðilar.“

Átta aðilar lýstu yfir áhuga á plássunum en þrír skiluðu inn formlegu tilboði en þetta er í annað sinn sem Isavia auglýsir eftir rekstraraðilum í tímabundin rými en fyrirkomulagið er þekkt á flugvöllum erlendis. Í sumar og fram til enda nóvember 2017 rekur veitingastaðurinn Sbarro tímabundna veitingasölu í rýminu. Isavia gerir ráð fyrir að bjóða rýmin til leigu að nýju næsta vor.

Í verslun Epal verður í boði fjölbreytt úrval hönnunarvara þar sem sérstök áhersla verður á íslenska hönnun, en Epal hefur áður rekið hönnunarverslun í flugstöðinni. Ísey skyr mun bjóða upp á íslenskt skyr og skyrrétti og er þetta í fyrsta sinn sem rekin er veitingasala með sérstakri áherslu á íslenskt skyr í flugstöðinni.