Fimmfalt fleiri í Bandaríkjaflugið frá Íslandi

Í fyrra flugu 805 þúsund farþegar frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna og þeim hefur farið hratt fjölgandi síðustu ár. Aukin samkeppni hefur ekki orðið til þess að dregið hafi úr umsvifum Icelandair vestanhafs.

Í dag fljúga 22 þotur héðan til Bandaríkjanna en frá Kaupmannahafnarflugvelli, fjölförnustu flughöfn Norðurlanda, verða ferðirnar vestur um haf aðeins sex talsins. Þessi mikli munur takmarkast ekki bara við daginn í dag því farþegum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar standa almennt til boða mun tíðari ferðir til Bandaríkjanna og til fleiri áfangastaða en gerist og gengur á hinum Norðurlöndunum. Og það stefnir í að úrvalið aukist töluvert á næsta ári með nýjum áfangastöðum í miðvesturhluta Bandaríkjanna. Lega Íslands og sú staðreynd að bæði Icelandair og WOW gera út á flug milli N-Ameríku og Evrópu, með millilendingu hér á landi, er helsta ástæðan fyrir því að framboðið á Bandaríkjaflugi héðan er eins mikið og dæmið hér að ofan sýnir. Og miðað við þau gögn sem Túristi hefur fengið frá bandarískum samgönguyfirvöldum þá flugu fimmfalt fleiri farþegar, frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna, í fyrra en árið 2010. Þannig sátu rúmlega 805 þúsund farþegar í þotunum sem fóru héðan til bandarískra flugvalla á síðasta ári eða um 2200 farþegar á dag en þeir voru um 160 þúsund allt árið 2010 eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan.
Þar sést líka að farþegum Icelandair fjölgar umtalsvert á milli ára jafnvel þó WOW air hafi byrjað að fljúga vestur um haf í hittifyrra. Innkoma Delta Air Lines hefur heldur ekki dregið úr umsvifum Icelandair en vafalítið er aukin samkeppni í Ameríkuflugi, bæði frá Íslandi og Evrópu, meginástæða þess að nú er ódýrara að fljúga til Bandaríkjanna en áður.
Þess ber að geta að áætlunarflug Iceland Express til Bandaríkjanna sumarið 2010 og 2011 kemur ekki fram í tölunum frá Bandaríkjunum og þær ná aðeins yfir farþegafjölda til Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli, ekki í hina áttina.

Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í hópi ferðamanna hér á landi og í fyrra voru þeir 415 þúsund talsins samkvæmt talningu Ferðamálastofu eða rúmur helmingur af þeim 805 þúsund farþegum sem flugu héðan til Bandaríkjanna í fyrra. Ef til einföldunar er gert ráð fyrir að allir bandarískir túristar, sem hingað koma, fljúgi tilbaka til Bandaríkjanna þá sést að vægi þeirra í farþegaflórunni hefur aukist verulega eftir að WOW hóf að fljúga til Ameríku í hittifyrra. Áður skipuðu bandarískir ferðamenn um þriðja hvert sæti í þotunum sem flugu frá Keflavíkurflugvelli en hlutfallið rauk upp í 46% í hittifyrra og hækkaði upp í rúmlega helming í fyrra eins og myndi sýnir.
Ástæðurnar geta verið margvíslegar, til dæmis lægri fargjöld, tíðari ferðir, auknar vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar og sterkt gengi dollars. Eins gæti spilað inn í að WOW air er eitt um flugið héðan til Kaliforníu og farþegar sem eru komnir svo langt að gætu frekar kosið að dvelja á landinu í stað þess að halda áfram til Evrópu.