Fjórða flugfélagið hefur flug milli Íslands og New York

Í vor hefur United Airlines flug hingað frá Newark flugvelli og þar með bjóða tvö bandarísk flugfélög upp á ferðir hingað.

Mynd: United Airlines

Evrópsku borgirnar Zurich, Edinborg, Porto og Reykjavík bætast við leiðakerfi bandaríska flugfélagsins United Airlines næsta sumar en flogið verður hingað daglega frá Newark flugvelli sem er skammt frá New York. Jómfrúarferðin frá Keflavíkurflugvelli er á dagskrá í lok maí og er ætlunin er að starfrækja flugleiðina fram í byrjun október samkvæmt tilkynningu frá flugfélaginu. Þar kemur fram að þotur United fari í loftið frá Newark klukkan hálf ellefu að kvöldi og lendi hér á landi tíu mínutur yfir átta morguninn eftir. Rétt fyrir hádegi snýr farþegaþotan svo aftur til Bandaríkjanna og lendir þar klukkan 14 að staðartíma.

Með tilkomu United Airlines geta farþegar á leið milli Íslands og New York valið á milli ferða fjögurra flugfélaga því í dag flýgur Delta Air Lines héðan til JFK flugvallar, WOW air  til Newark og þotur Icelandair fljúga til beggja þessara flugvalla. Ódýrasti farmiðinn með United, frá Íslandi, kostar í dag um 37 þúsund krónur samkvæmt bókunarvél félagsins. Það á til dæmis við um fyrstu ferðina héðan þann 24. maí og sá sem flýgur heim viku síðar greiðir 70.290 krónur fyrir báðar leiðir. Fyrir sömu daga kostar farið hjá Delta 61.225 krónur, 59.665 kr. hjá Icelandair og 54.997 kr. með WOW air. Innritaður farangur fylgir ódýrustu fargjöldunum hjá öllum flugfélögunum nema WOW air en þar þarf að borga 9.998 kr. aukalega fyrir innritaða tösku, báðar leiðir. Matur og áfengir drykkir fylgja einnig með ódýrustu miðunum hjá Delta og United.