Svona dreifast flugfarþegarnir frá Íslandi um Bandaríkin

Að jafnaði var 83% sætanýting í flugi frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna í fyrra og Logan flughöfnin í Boston er sú sem flestir fljúga til frá Íslandi.

boston stor
Flestir sem fljúga héðan til Bandaríkjanna lenda á Logan flugvelli í Boston. Mynd: Visit Boston

Það voru sæti fyrir nærri 962 þúsund manns í áætlunarfluginu frá Keflavíkurflugvelli til Bandaríkjanna á síðasta ári og í heildina nýttu 805 þúsund farþegar sér ferðirnar. Sætanýtingin var því um 83 prósent samkvæmt þeim gögnum sem Túristi hefur fengið frá bandarískum samgönguyfirvöldum og unnið úr. Nýtingin er nokkuð jöfn eftir flugfélögum og flugleiðum en hæst var hún þó í áætlunarferðunum heðan til JFK flugvallar í New York eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan. Í þeirri borg er líka flogið til Newark flugvallar og flestir þeirra sem nýta sér Bandaríkjaflugið héðan lenda því í New York en Logan í Boston er engu að síður sú flughöfn sem tekur á móti flestum farþegaum frá Keflavíkurflugvelli eða rúmlega 164 þúsund farþegum í fyrra.

Í töflunni hér fyrir neðan má líka sjá skiptingu farþega eftir flugfélögum og flugvöllun en hafa ber í huga að í sumum tilvikum eru aðeins um að ræða flugleiðir sem haldið er út í skamman tíma á ári, t.d sumarflug Icelandair til Anchorage í Alaska og eins hóf WOW flugið til Newark í lok síðasta árs. Farþegarnir í þessum tilfellum eru því fáir. En eins og Túristi greindi nýverið frá þá hefur farþegum í flugi héðan til Bandaríkjanna fjölgað hratt síðustu ár og aukin samkeppni hefur líka haft áhrif á hlutdeild flugfélaganna (sjá nánar).