Sumarflug til Miami leggst af

Í vor gerir WOW air hlé á flugi sínu til Miami en tekur aftur upp þráðinn næsta haust. Þar með er Tampa eini borgin á Flórídaskaganum sem flogið er beint til frá Keflavíkurflugvelli alla mánuði ársins.

Mynd: Lance Asper / Unsplash

Síðastliðið hálft ár hefur WOW air flogið þrjár ferðir í viku milli Íslands og Miami í Flórída og ætlunin var að halda þessari flugleið úti allt árið um kring. Frá þeim áformum hefur hins vegar verið horfið því að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, mun flugfélagið ekki bjóða upp á flug til Miami næsta sumar og í staðinn verði ferðirnar þangað bundnar við vetrarmánuðina. Eins og staðan er í dag þá mun WOW fljúga til Miami í það minnsta fram í byrjun apríl en ekki hefur verið ákveðið hversu langt sumarhléið verður. En öruggt er að WOW mun hefja flug til Miami á ný næsta haust.

Miami er einn þeirra þriggja áfangastaða sem hægt er að fljúga til beint frá Keflavíkurflugvelli. Hinir tveir, Orlando og Tampa, eru á vegum Icelandair en til þeirrar fyrrnefndu hefur félagið flogið um langt skeið og þá jafnan gert þriggja mánaða hlé á ferðunum frá byrjun júní. Icelandair hóf að fljúga til Tampa fyrr í þessum mánuði og verða ferðirnar þangað í boði alla mánuði ársins.

Smelltu til að gera verðsamanburð á bílaleigubílum í Flórída