Hræódýrar pakkaferðir til Íslands

Flug frá London, tvær nætur á fjögurra stjörnu hóteli í Reykjavík og skoðunarferðir fyrir 22 til 26 þúsund krónur. Vetrarferðir til Íslands þurfa ekki að kosta Breta mikið.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com

Ódýrustu farmiðarnir með easyJet til Íslands í vetur kosta tæpar 4000 þúsund krónur og þessi óvenju lágu fargjöld nýta breskar ferðaskrifstofur sér þessa dagana til að selja ódýrar pakkaferðir til Íslands. Dæmi um eina slíka er tveggja nátta Reykjavíkurreisa Holiday Pirates en innifalið í henni er flug frá Bretlandi, tvær nætur á Hótel Skjaldbreið við Laugaveg og miði í Bláa lónið. Þessi pakkaferð er auglýst á 189 pund eða rétt um 26 þúsund krónur. Hjá ferðaskrifstofunni Tour Center hefur Bláa lóninu verið skipt út fyrir norðurljósaferð og þá lækkar verðið niður í tæpar 22 þúsund krónur.

Þessi tilboðsverð hjá Holiday Pirates og Tour Center miðast við að flug með easyJet frá Luton flugvelli við Lundúnir í desember eða janúar. En á þeim tíma er nefnilega hægt að bóka flugmiða, báðar leiðir, með easyJet til Íslands fyrir 7.585 krónur, t.d. 6. til 8 desember. Yfir þá daga kostar tveggja manna herbergi á Hótel Skjaldbreið 18.033 kr. á mann og ódýrasti miðinn í Bláa lónið er á 6.800 krónur. Sá sem setur sjálfur saman svona ferð borgar því 32.418 krónur fyrir flug, hótel og Bláa lónið en athygli vekur að flugið með easyJet kostar álíka mikið og aðgöngumiði í Bláa lónið. Norðurljósaferð, t.d með Gray Line, kostar hins vegar 4.700 kr.