Íslandsflugið eitt það vinsælasta í Kaupmannahöfn

Í sumar flugu rúmlega 200 þúsund farþegar milli flugvallanna sem kenndir eru við Keflavík og Kastrup.

kaupmannahof farthegar
Frá Kaupmannahafnarflugvelli Mynd: Cph.dk

Yfir hásumarið er oftar flogið héðan til Kaupmannahafnar en til nokkurrar annarrar borgar og í sumar nýttu fleiri sér þessar áætlunarferðir en dæmi eru um. Alls fóru 203.369 farþegar þessa leið sem er aukning um 6,1% samkvæmt útreikningum Túrista sem byggja á upplýsingum frá Kaupmannahafnarflugvelli. Þessar vinsældir flugleiðarinnar gerðu það að verkum að áfangastaðurinn „Keflavík-Reykjavík“ var í 8. sæti á listanum yfir 10 fjölförnustu flugleiðirnar frá Kastrup í júlí og ágúst en í níunda sæti í júní.

London er hins vegar í efsta sæti og þar á eftir koma Ósló og Stokkhólmur. Álaborg er eina danska borgin sem kemst á topplistann en þar eru einnig borgir eins og Berlín, París og Amsterdam. Enginn áfangastaður utan Evrópu kemst þó á topp 10 listann á Kaupmannahafnarflugvelli enda geta farþegar þar ekki valið úr jafn tíðum ferðum til Bandaríkjanna og farþegar á Keflavíkurflugvelli eiga að venjast.

Í fyrra hóf SAS að fljúga hingað frá Kaupmannahöfn en fram að því höfðu íslensk flugfélög setið ein að þessari flugleið um  mjög langt skeið. Á þeim tíma hefur Icelandair verið langumsvifamest og miðað við þær tölur sem fengust hjá dönskum flugmálayfirvöldum þá flutti Icelandair 2 af hverjum 3 farþegum sem flugu milli Íslands og dönsku höfuðborgarinnar í fyrra. Þriðjungur hópsins skiptist svo á milli SAS og WOW air en í heildina voru farnar 1218 áætlunarferðir milli Íslands og Kaupmannahafnar í sumar samkvæmt talningu Túrista og meðal farþegafjöldinn því verið 167 farþegar í hverri ferð.