Íslenskir hótelstjórar veita væna afslætti í vetur

Nærri 100 hótel um allt land bjóða nú sérstakan norðurljósaafslátt á tiboðssíðu Hotels.com. Framboðið hér á landi er nokkru meira en á hinum Norðurlöndunum.

reykjavik Tim Wright

Jafnvel þó miklu fleiri sæki nú Ísland heim yfir vetrarmánuðina en áður tíðkaðist þá standa fleiri hótelherbergi tóm á þeim árstíma en yfir sumarið. Sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins og það er því ekki að undra að íslenskir hóteleigendur slái af verðinu yfir köldustu mánuðina líkt og starfsbræður þeirra víða út heim gera nú um mundir. Tilboðin hér á landi eru þó miklu fleiri en til að mynda á hinum Norðurlöndum ef tilboðssíða Hotels.com gefur rétta mynd af stöðunni. Þar eru núna auglýst sérstök norðurljósakjör á gistingu á Íslandi, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi og er framboðið langmest hér á landi. Rétt um 100 íslenskir gististaðir, í öllum verðflokkum, taka nefnilega þátt og bjóða allt að fjórðungsafslátt af gistingunni frá miðjum október og fram til vetrarloka. Flest hótelin eru í Reykjavík eða 37 talsins en hin á víð og dreif um landið. Í Svíþjóð eru tilboðin rétt um sextíu og þar af um helmingur í Stokkhólmi en aðeins fjórir hótelstjórar í Ósló taka þátt og tveir í Helsinki. Í minni borgum og bæjum í Noregi og Finnlandi er þó einnig að finna afslætti.

Sem fyrr segir er hægt að velja á milli ýmis konar gistingar á tilboðinu hjá Hotels.com. Þannig býður Hótel Borg nóttina á rúmar 22 þúsund krónur og á ódýrasta herbergið á Marina Hótel er á rúmar 27 þúsund krónur. Hæsta tilboðsverðið er hins vegar í háhýsinu við Katrínartún en nóttin á Tower Suites kostar að lágmarki 126 þúsund hjá Hotels.com. Tilboðin á þriggja stjörnu hótelunum hljóma upp á 15 til 20 þúsund krónur og tveggja stjörnu gisting er um helmingi ódýrari að jafnaði. Verðlagið á Akureyri, Borgarnesi og víðar eru svipað og í höfuðborginni.

Íslendingar sem ætla sér að heimsækja hin Norðurlöndin í vetur geta líka fundið góð kjör á norðurljósatilboði Hotels.com, t.d. í Stokkhólmi jafnvel þó líkurnar á ljósasýningu á himni þar í borg séu engar.