Íslensku flugfélögin veðja á sama hest í Texas

Í síðustu viku tilkynnti WOW air um nýtt áætlunarflug til Dallas og þangað ætlar Icelandair líka.

Mynd: Icelandair
Mynd: Icelandair

Frá og með maí á næsta ári geta farþegar á leið milli Íslands og bandarísku borgarinnar Dallas valið á milli áætlunarferða með bæði Icelandair og WOW air. Forsvarsmenn þess síðarnefnda tilkynntu áform sín um flug þangað í síðustu viku og nú hefur Icelandair gert slíkt hið sama. „Við höfum lengi horft til Dallas sem áfangastaðar sem fellur vel að leiðakerfi okkar og þéttir og styrkir tengiflugið til og frá Evrópu. Flugtíminn er tæplega 8 klukkustundir og Boeing 757 vélar okkar eru afar hagkvæmur kostur fyrir þessa flugleið“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair. Með Dallas fjölgar áfangastöðum Icelandair í 49 en flogið verður til bandarísku borgarinnar fjórum sinnum í viku allt árið um kring. WOW air flýgur til Dallas þrisvar í viku.

Stærsta flughöfnin í Texas

Forth-Worth flugvöllurinn í Dallas er fjölfarnasta flughöfnin í Texas en þrátt fyrir stærðina þá eru British Airways og Lufthansa einu evrópsku flugfélögin þar í dag og fljúga þaðan til Frankfurt og London. Samkeppnin um farþega á leið milli Texas og Evrópu er mun meiri frá flugvellinum sem kenndur er við George Bush, fyrrverandi forseta, í Houston. Þaðan er flogið til 7 evrópskra borga en sem fyrr segir þá ætla bæði íslensku félögin að halda til Dallas Forth-Worth í vor.