Mæla með haustferðum til Reykjavíkur

Höfuðborgin kemst á lista hjá breska blaðinu Telegraph yfir þær borgir sem best er heim að sækja næstu vikurnar.

Mynd: Sigurjón Ragnar/sr-photos.com
Mynd: Sigurjón Ragnar/srphotos.com

Færri ferðamenn, ódýrari gisting, norðurljós og huggulegri stemning á kaffihúsum og börum eru helstu ástæður þess að blaðamenn ferðarits Telegraph setja Reykjavík á lista yfir þær 20 borgir sem eru mest spennandi fyrir haustið. Í umfjölluninni um Reykjavík er líka sérstaklega mælt með sýningunni Borgarveran í Norræna húsinu og eins Iceland Airwaves sem fer fram í byrjun nóvember. Og þegar kemur að gistingu þá bendir Telegraph á Canopy by Hilton og Oddsson en bæði hótelin fá 8 af 10 í einkunn hjá breska blaðinu.

Þeir lesendur Telegraph sem ákveða að fylgja ráðum blaðsins og fara til Íslands ættu ekki að vera í vandræðum með að finna flug hingað því eins og Túristi greindi frá í vikunni þá verða í boði allt að 13 ferðir á dag hingað frá London í vetur. Eins er flogið hingað frá Aberdeen, Manchester, Edinborg, Glasgow, Bristol, Belfast og Birmingham (sjá nánar). Breskar ferðaskrifstofur hafa einnig verið að bjóða mjög ódýrar pakkaferðir hingað síðustu vikur, til að mynda flug, tvær nætur á hóteli og norðurljósaferðir eða heimsókn í Bláa lónið á allt að 22 þúsund krónur.

20 bestu ferðamannaborgir haustsins að mati Telegraph

 1. Amsterdam
 2. Barcelona
 3. Berlín
 4. Bruges
 5. Budapest
 6. Kaupmannahöfn
 7. Dubrovnik
 8. Edinborg
 9. Flórens
 10. Lissabon
 11. London
 12. Madríd
 13. Marrakech
 14. París
 15. Prag
 16. Reykjavík
 17. Róm
 18. Seville
 19. Feneyjar
 20. Vínarborg