Ódýrara að fljúga til New York og kaupa iPhone X í stað þess að kaupa símann í Evrópu

Í krónum talið kostar nýjasti snjallsími Apple 45 þúsund krónum minna í Bandaríkjunum en í Evrópu. Fyrir mismuninn má fá farmiða með WOW air til New York og jafnvel gistingu í 2 nætur.

Myndir: Apple og Todd Quackenbush/Unsplash

Þann 3. nóvember hefst sala á iPhone X í Bandaríkjunum og mun hann kosta 999 dollara eða rétt um 105 þúsund krónur. Ekkert verð hefur verið gefið út fyrir símann hér á landi en á evrópskum vefsíðum Apple kostar símann um 150 þúsund íslenskar krónur. Fyrir þennan mismun má fá flugmiða með WOW air til New York og gistingu á vegum Airbnb líkt og Juan Buis benti á í Twitter færslu í vikunni og hið breska Guardian vakti athygli á. Í grein blaðsins er hins vegar ítrekað að einstaklingar mega aðeins taka með sér varning til Bretlands sem kostar að hámarki 55 þúsund krónur (390 pund) án þes að greiða af vörunni töll. Eins þarf að hafa í huga að á eftir að leggja söluskatt ofan á söluverðið sem Apple gefur upp á bandarísku heimasíðunni sinni.

Á Íslandi er hámark tollfríðinda 88 þúsund krónur og þeir sem versla í útlöndum fyrir hærri upphæð verða að fara í rauða hliðið í Leifsstöð við komuna og greiða þar lögbundin aðflutningsgjöld af mismuninum. Þegar öllu er á botninn hvolft er því ekki víst að það borgi sig að gera sér vestur um haf til að ná sér í iPhone X, jafnvel þó hægt sé að fljúga héðan með WOW air 3. til 6. nóvember fyrir 29.997 krónur.