Ólöglegt að ákvarða laun út frá stærð flugfreyjubúningsins

Rússneskur dómstóll segir þjóðarflugfélagið ekki mega stýra verkefnum áhafnarmeðlima út frá fatastærð.

Áhafnarmeðlimir flugfélaganna í Skyteam bandalaginu. Flugfreyja Aeroflot er sú fimmta frá vinstri. Mynd: Skyteam

Þeim mun stærri sem einkennisfötin eru þeim mun minna fá flugfreyjurnar borgað. Það hefur alla vega verið óskráð regla hjá rússneska flugfélaginu Aeroflot ef marka má reynslu flugfreyjunnar Evgenia Magurina. Eftir sjö ára starf hjá félaginu hætti hún nefnilega að fá borgaða bónusa og var ekki lengur boðuð í millilandaflug sem er nokkru betur borgað en innanlandsflugið hjá Aeroflot. Vegna þessa lækkuðu laun hennar um 30 prósent og þegar Magurina óskaði skýringa á stöðunni fékk hún þau svör að hún stæðist einfaldlega ekki þær kröfur sem flugfélagið gerir til líkamsstærðar flugfreyja. En samkvæmt þeim mega freyjurnar ekki nota einkennisbúninga sem eru stærri en samsvarar evrópsku stærðinni 42. Þessi krafa virðist ekki vera neitt launungamál því á fréttamannafundi í apríl sagði talsmaður Aeroflot að útlit áhafnarmeðlima væri ein af ástæðunum fyrir því að farþegar félagsins væru reiðubúnir til að borga meira fyrir farmiðana. Máli sínu til stuðnings benti hann á að niðurstöður könnunar sýndu að 92 prósent viðskiptavina vilja að flugfreyjurnar klæðist einkennisbúningum í minni kantinum að því segir í frétt Guardian.

Magurina segist hafa orðið sármóðguð yfir þessum skýringum vinnuveitenda sinna og ákvað, ásamt starfssystur sinni, að stefna Aeroflot fyrir að ákvarða kjör starfsfólks út frá fatastærð. Málinu var í fyrstu vísað frá en í byrjun september féll loks dómur í málinu og samkvæmt honum verður Aeroflot að borga flugfreyjunum bætur sem jafngilda þeirri launalækkun sem þær hafa orðið fyrir síðustu misseri. Stjórnendur Aeroflot sendu í framhaldinu frá sér tilkynningu þar sem þeir segjast fagna dómnum þar sem hann staðfesti að reglur flugfélagsins mismuni ekki starfsfólki vegna aldurs, kyns, kynþáttar eða að nokkru öðru leyti. Þeir bættu því við að málinu yrði hugsanlega áfrýjað.