Selja ekki skíðaferðir í vetur

Ein stærsta ferðaskrifstofa landsins mun ekki hafa á boðstólum vetrarferðir í Alpana.

Frá Austurríki. Mynd: Österreich Werbung / Peter Podpera

Eftir tvo mánuði hefst skíðavertíðin í Ölpunum formlega þó fólk fari ekki að flykkjast í brekkurnar fyrr en í kringum jól, ef það hefur þá snjóað almennilega. Á Þorláksmessu hefst einmitt hið árlega skíðaflug WOW air til Salzburg í Austurríki en flugfélagið hefur boðið upp á vikulegar brottfarir til fæðingarborgar Mozarts yfir háveturinn síðustu ár. Um borð hefur vanalega verið fjöldi farþega á vegum Heimsferða á leið í skíðaferð til Lungau eða Flachau en ekki að þessu sinni því í vetur munu ferðaskrifstofan ekki bjóða upp á neinar skíðaferðir. Ástæðan er einfaldlega sú að flugverðið til Salzburg var of hátt að sögn Tómasar. J. Gestssonar, framkvæmdastjóra Heimsferða.

Hinar stóru ferðaskrifstofurnar halda hins vegar sínu striki. Þannig bjóða Úrval-Útsýn og Vita upp á ferðir í ítalska hluta Alpanna en sú síðarnefnda er einnig með ferðir til Austurríkis en þá í tenglsum við áætlunarflug Icelandair til Munchen. Það flug nýta GB-ferðir sér einnig fyrir sína skíðapakka en Gaman ferðir, dótturfélag WOW air, býður upp á ferðir í skíðasvæðin við Salzburg. Þeir sem vilja ferðast á eigin vegum í Alpana í vetur geta nýtt sér fyrrnefnd áætlunarflug til Munchen og Salzburg en auk þess býður Icelandair nú í fyrsta skipti upp á beint flug til Zurich yfir vetrarmánuðina. Auk þess hefst Íslandsflug easyJet frá Basel í byrjun febrúar og frá Genf í lok mars en þá er skíðavertíðin senn á enda.