Stærsta sumar frá upphafi á Keflavíkurflugvelli

Bæði í júlí og ágúst fór farþegafjöldinn á Keflavíkurflugvelli yfir eina milljón en annasamasti dagurinn var í ágúst. Nýliðið sumar var miklu stærra, í farþegum talið, en undanfarin sumur.

kef farthegar

Það sem af er ári hafa 5.954.761 farþegar farið um Keflavíkurflugvelli sem er fjölgun um nærri þriðjung frá sama tíma í fyrra. Fjöldinn er í takt við farþegaspá Isavia sem gefin var út í lok síðasta ár og áfram er gert ráð fyrir að í heildina verði farþegarnir á bilinu 8,7 – 8,8 milljónir í ár sem yrði þá um 28% aukning frá árinu 2016. Skipting farþega er í samræmi við spár en um þriðjungur farþega flugvallarins eru tengifarþegar en aðrir farþegar skiptast í komu og brottfararfarþega samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

Líkt og áður hafa sumarmánuðirnir þrír verið annasamasta tímabilið á flugvellinum og í fyrsta sinn í sögunni fóru yfir ein milljón farþega í gegnum flugvöllinn á einum mánuði og gerðist það í júlí og aftur í ágúst. Stærsti dagur sumarsins var 6. ágúst þegar 40.147 farþegar fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar en í heildina ferðuðust rúmlega 3,1 milljónir til og frá Keflavíkurflugvelli í júní, júlí og ágúst. Á sama tíma í fyrra voru þeir tæplega 2,6 milljónir eins og sjá má á myndinni.

Í tilkynningu frá Isavia segir að heilt yfir hafi umferðin um flugvöllinn gengið mjög vel í sumar og að þær afkastaaukandi framkvæmdir sem ráðist hafi verið í síðastliðin misseri hafi skilað árangri. Þannig hafi biðtími í öryggisleit verið undir 5 mínútum hjá 88% farþega í ágústmánuði þrátt fyrir sögulegan fjölda farþega og að flug hafi almennt oftar verið á réttum tíma miðað við sama tímabil í fyrra. Munaði þar um hina nýju næturinnritun sem skilaði dreifðara álagi í innritun og öryggisleit.

„Það er frábært að verða vitni að því góða starfi sem unnið er á Keflavíkurflugvelli, hvort sem er hjá starfsfólki Isavia eða rekstraraðila á flugvellinum. Fjöldi farþega í sumar, og í raun alla mánuði þessa árs er sögulegur eins og vöxtur ferðaþjónustunnar og flugsins í heild. Það er því mikilvægt að starfsemin á flugvellinum, í flugumferðarþjónustu og annarri tengdri starfsemi gangi vel og snurðulaust fyrir sig þannig að upplifun farþega verði jákvæð við komu til landsins sem og við brottför. Ég vil því þakka starfsfólki á Keflavíkurflugvelli sem og starfsmönnum Isavia í heild fyrir frábært starf í sumar sem og síðastliðin ár við krefjandi aðstæður,“ segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, í tilkynningu.