Tímaspursmál hvenær flugfélag myndi átta sig á tækifærinu í Cleveland

Bæði Icelandair og WOW air ætla að hefja flug til bandarísku borgarinnar Cleveland á næsta ári. Forsvarsmenn flugmála í borginni fullyrða að með komu íslensku félaganna verði það ódýrara fyrir íbúa Cleveland að ferðast sér til Evrópu.

Í síðustu viku tilkynntu bæði Icelandair og WOW air að næsta vor myndi bandaríska borgin Cleveland bætast við leiðakerfi félaganna. Þar með er ljóst að íslensku félögin munu keppa við hvort annað um farþega í flugi til og frá fimm bandarískum borgum, þ.e. New York, Boston, Washington, Chicago og svo Cleveland. Til þeirra fjögurra fyrrnefndu er mikið framboð á flugi í allar áttir á meðan samgöngurnar frá Hopkins flugvellinum í Cleveland takmarkast næstum við innanlandsflug. Þaðan hefur til að mynda ekki verið flogið til Evrópu síðan árið 2009 og verða Icelandair og WOW air þar með einu evrópsku flugfélögin í Cleveland.
Það var hins vegar bara tímaspursmál að eitthvað flugfélag myndi átta sig á möguleikunum í borginni segja þeir Daniel Williams, talsmaður borgaryfirvalda, og Todd Payne, hjá Cleveland flugvelli, í samtali við Túrista. Benda þeir á að í fyrra hafi 108 þúsund farþegar flogið frá Cleveland til Evrópu og Miðausturlanda eftir að hafa millilent annars staðar í Bandaríkjunum á leiðinni yfir hafið. Ástæðan fyrir þessari miklu eftirspurn eftir Evrópuflugi er sú, að mati Williams og Payne, að íbúar borgarinnar eiga rætur að rekja til margra landa í Evrópu og eins er meðalaldur borgarbúa lágur.

Rússibanar, rokk, körfubolti og klassík

Með tilkomu íslensku flugfélaganna í Cleveland eru þeir Williams og Payne sannfærðir um að það verði mun ódýrara fyrir borgarbúa að ferðast til Evrópu. Á sama hátt vonast þeir eftir að Íslendingar og fleiri fjölmenni til borgarinnar jafnvel þó hún sé í hugum margra óskrifað blað. Aðalaðdráttaraflið er vissulega körfuboltalið borgarinnar sem LeBron James, helsta stjarna NBA deildarinnar, leikur með, frægðarhöll rokksins (Rock´n´Roll Hall of Fame) og svo er sinfóníuhljómsveit borgarinnar talin ein af þeim fimm bestu í Bandaríkjunum. Williams nefnir einnig að aðgangur að öllum söfnum Cleveland er frír og eins mun næturlíf borgarinnar vera rómað. Heilbrigðisþjónustan hefur líka notið hylli meðal olíufursta og ríkra einstaklinga í Miðausturlöndunum og í útjaðrinu eru rússibanarnir sem gætu lokkað til sín fífldjarfa ferðamenn alls staðar að úr heiminum.

WOW veðjar á svæðið

Cleveland er ekki eini nýi áfangastaður WOW í miðvesturhluta Bandaríkjanna. Félagið ætlar nefnilega jafnframt að hefja flug til St. Louis, Cincinatti og Detroit en eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan liggja borgirnar nokkuð nærri hvorri annarri og skammt frá eru líka Chicago og Pittsburg sem bættust við leiðakerfi WOW fyrr á þessu ári. Til þeirrar fyrrnefndu flýgur Icelandair einnig.