Útlit fyrir dýrari gistingu á Spáni

Ferðamannastraumurinn hefur legið til Spánar síðustu ár og íslenskir og breskir ferðafrömuðir sjá fram áframhaldandi hækkandi hótelverð þar í landi.

Mynd: Spain.info

Sólþyrstir Evrópubúar hafa fjölmennt sem aldrei fyrr á Spánarstrendur síðustu ár. Ekki bara yfir sumarmánuðina því vetrarferðir til Kanaríeyja hafa aldrei verið vinsælli. Skýringin á þessu liggur að hluta til í ótryggu ástandi í löndum eins og Tyrklandi og Egyptalandi og á tímabili hafa evrópsk yfirvöld lagst gegn ferðum þegna sinna til þessara landa. Á þeim ferðaviðvörunum hefur verið slakað að einhverju leyti en ferðalangar sækja áfram í öryggið á Spáni. Þessi mikla eftirspurn hefur orðið til þess að verðlagið á Spáni hefur farið upp á við og nú gera breskir ferðafrömuðir ráð fyrir því að verðskrár spænskra hótela hækki á næsta ári um 5 til 10 prósent samkvæmt frétt Independent.

Forsvarsmenn íslenskra ferðaskrifstofa haga líka fundið fyrir þessum breytingum og segist Þórunn Reynisdóttir hjá Ferðaskrifstofu Íslands sjá svipaðar hækkanir á hótelverði á Spáni en hún segir þó markmiðið vera að halda heildarverðinu á pakkaferðum á sama róli og það var í ár. Tómas J. Gestsson hjá Heimsferðum segir Spánverja hafa almennt hækkað verð því megi búast við einhverri hækkun en bróðurpartur þeirra sólarlandaferða sem íslenskar ferðaskrifstofur bjóða upp eru á spænska áfangastaði. Þangað hefur straumurinn héðan líka legið og allt árið í fyrra flugu til að mynda að jafnaði um 500 Íslendingar í viku til Tenerife og tvöfaldaðist fjöldi íslenskra ferðamanna á eyjunni á milli áranna 2014 og 2016.

Sumarprógramm stærst ferðaskrifstofanna hér á landi verður kynnt á næstunni og þá kemur í ljós hvort nýir áfangastaðir bætist við en í fyrrnefndri frétt Independent kemur fram að Bretar séu farnir að bóka Tyrklandsferðir í auknum mæli. En líkt og Túristi greindi frá nýverið þá ætlar ferðaskrifstofan Nazar að bíða í eitt ár í viðbót með að hefja sölu á ferðum þangað á ný frá Íslandi.