WOW boðar nýja tíma á Keflavíkurflugvelli

Í sumar stóðu flugbrautirnar við Flugstöð Leifs Eiríksson auðar í hádeginu en á því verður breyting á næsta ári með nýrri áætlun WOW air. Félagið mun einnig bjóða upp á Bandaríkjaflug á vannýttum tímum á kvöldin.

Brátt tengir WOW air ferðir milli Dublin og Detroit og fleiri evrópskra og bandarískra borga á nýjum tímum. Myndir: Ferðamálaráð Detroit og Dublin og WOW air

Þann 6. ágúst síðastliðinn fóru 40.147 farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hafa þeir aldrei áður verið jafn margir á einum sólarhring. Á þessum metdegi fóru 54 farþegaþotur í loftið um morguninn en í hádeginu, milli hálf tólf og korter í eitt, var allt með kyrrum kjörum og engar brottfarir á dagskrá Keflavíkurflugvallar. Sú var líka raunin alla aðra daga í sumar enda hafa nær eingöngu erlend flugfélög boðið upp á millilandaflug héðan í kringum hádegishléið því þá eru þotur íslensku félaganna á leið inn til lendingar á evrópskum flugvöllum.

Kyrrðin verður hins vegar rofin á flugbrautunum á Miðnesheiði á slaginu klukkan 12 því frá og með vorinu hefur WOW air sett á dagskrá daglegar áætlunarferðir til nokkurra evrópskra borga, þar á meðal til Amsterdam, Dublin, París og Kaupmannahafnar. Þoturnar sem þangað fljúga koma svo tilbaka til Íslands um kvöldmatarleytið eða nógu tímanlega fyrir áætlunarflug WOW til bandarísku borganna Cincinnati, Cleveland, Dallas og Detroit. Brottfarir til þessara nýju áfangastaða flugfélagsins verða á dagskrá milli níu og hálf tíu á kvöldin en á þeim tíma hafa einu farþegarnir í Leifsstöð verið þeir sem eru á leið með Wizz Air til Austur-Evrópu. Milli klukkan hálf ellefu og ellefu daginn eftir lenda þessar farþegaþotur svo á nýjan leik á Keflavíkurflugvelli og þeir farþegar sem ekki ætla sér að dvelja hér á landi geta þá haldið áfram til Evrópu með WOW eða öðrum flugfélögum.

Í tilraun sinni til að dreifa álaginu á Keflavíkurflugvelli hafa forsvarsmenn Isavia boðið flugfélögum afslætti af farþegagjöldum í tengslum við flug í kringum hádegi og kvöldmat líkt og Túristi greindi frá. Að þeim kjörum ætti WOW air að geta gengið í tengslum við fyrrnefndar flugferðir en afslátturinn nemur 5 evrum (um 640kr.) á hvern farþega sem er um fjórðungur af farþegagjöldum flugvallarins.

Aðspurð segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW, að líklegt sé að félagið muni bæta við fleiri ferðum á þessum dagspörtum, bæði til nýrra og núverandi áfangastaða.