WOW komið til Ísrael

Nú einskorðast áætlunarflug frá Íslandi ekki lengur við Evrópu og Norður-Ameríku.

Mynd: WOW air

Í kvöld fór WOW air sína fyrstu ferð til Tel Aviv og hér eftir mun félagið bjóða upp á fjórar ferðir í viku héðan til þessarar næst fjölmennustu borgar Ísrael. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingum býðst beint áætlunarflug til Ísrael en hingað til hefur leiðakerfi Keflavíkurflugvallar ekki náð út fyrir Evrópu og Norður-Ameríku. WOW air notast við nýja Airbus A321neo farþegaþotu í áætlunarferðunum til Tel Aviv.

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga á ferðum til og frá Ísrael enda land sem býr yfir ríkri menningu. Með því að tengja Tel Aviv við leiðarkerfi WOW air til Norður Ameríku þá mun staða Íslands sem tengistöð styrkjast enn frekar,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og eigandi WOW air í tilkynningu. Þar segir jafnframt að Tel Aviv státi af fögrum ströndum og merkum menningarverðmætum og frá borginni sé hægt að fara í dagsferðir á staði á borð við Dauðahafið, Jerúsalem og Bethlehem. Loftslagið í Ísrael er hlýtt og milt en meðalhiti þar allt árið um kring er um 20 gráður.

Flugið héðan til Ísrael verður í boði allt árið um kring en ferðalög Ísraela hingað til lands hafa hingað til nær einskorðast við sumartímann. Alla vega miðað við það sem kemur fram í gistináttatölum Hagstofunnar. Þar sést líka að ísraelskir ferðamenn gista frekar úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Af þeim 8517 gistinóttum sem Ísraelar keyptu á íslenskum hótelum í júní og júlí voru um átta af hverjum tíu á gististöðum út á landi, langflestar á Suðurlandi eða þrjú þúsund talsins.