10 bestu ferðamannaborgirnar að mati Lonely Planet

Ferðaritið víðfræga hefur gefið út lista yfir þær borgir sem sérfræðingar þess segja þær áhugaverðustu fyrir túrista á næsta ári.

Mynd: Johan Mouchet/Unsplash

Þeir eru ófáir ferðalangarnir sem fara um með ferðabækur Lonely Planet og rit þess um Ísland mun vera áberandi á borðum veitingahúsa hér á landi þar sem túristar sitja að snæðingi. Trúverðugleiki Lonely Planet er nefnilega mikill og nýverið gáfu skríbentar þess út lista yfir þær 10 borgar sem þeir mæla helst með á næsta ári. Að þessu sinni á Evrópa þar fimm fulltrúa og í umsögn Lonely Planet um Seville, sem toppar listann, segir að nú séu dagar umferðaröngþveitis liðnir í miðborginni og í staðinn fari fólk þar um hjólandi eða með almenningssamgöngum. Það einfaldi ferðamönnum að njóta hinnar sögulegu og fallegu Seville sem meðal annars bregður fyrir í hinum vinsælu Game of Thrones, líkt og Ísland.

Stöku sinnum er í boði leiguflug héðan til Seville og á næsta ári hefst áætlunarflug WOW air héðan til bandarísku borgarinanr Detroit sem er í öðru sæti á listanum. Frá Keflavíkurflugvelli flýgur Icelandair svo allt árið til Hamborgar sem í fjórða sæti og sömuleiðis til Ósló sem er í því tíunda. Þangað er líka hægt að fá far héðan með SAS og Norwegian. Til Antwerpen má líka auðveldlega komast frá Brussel en til belgísku höfuðborgarinnar fljúga bæði íslensku flugfélögin. Öllu flóknara ferðalag bíður þeirra sem ætla að heimsækja hinar borginnar fimm.

Bestu ferðamannaborgir ársins 2018 að mati Lonely Planet

  1. Seville á Spáni
  2. Detroit í Bandaríkjunum
  3. Canberra í Ástralíu
  4. Hamborg í Þýskalandi
  5. Kaohsiung í Taívan
  6. Antwerpen í Belgíu
  7. Matera á Ítalíu
  8. San Juan í Puerto Rico
  9. Guanajuato í Mexíkó
  10. Ósló í Noregi