Ætla þrjár ferðir í viku til Tenerife

Það verða vikulega sæti fyrir rúmlega 600 farþega í áætlunarferðum WOW air til Tenerife en félagið er þó ekki eitt um flugið til eyjunnar.

Mynd: Ferðamálaráð Spánar

Í lok vetrar 2015 hóf WOW air að bjóða upp á áætlunarferðir til Tenerife. Fyrst um sinn var aðeins flogið á laugardögum en í byrjun síðasta árs bættist við þriðjudags brottför. Forsvarsmenn flugfélagsins sjá nú tækifæri í ennþá meira flugi til spænsku eyjunnar því brátt bætist þriðja ferðin við, á föstudögum. Þar með getur WOW air flutt á bilinu 600 til 654 farþega í viku hverri til Tenerife en það eru nær eingöngu Íslendingar sem nýta sér þessar áætlunarferðir að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air. Þessar tíðu ferðir verða í boði fram í lok mars.

Til Tenerife fljúga viðskiptavinir Gaman-ferða með WOW air en pakkaferðir stóru ferðaskrifstofanna eru með öðrum flugfélagum. Þannig fljúga farþegar Úrval-Útsýnar og Vita til spænsku eyjunnar á miðvikudögum í leiguflugi Icelandair og sömu daga fara Heimsferðir með Primera Air. Fyrstu þrjá mánuði næsta árs munu því fimm þotur í viku fljúga héðan til Tenerife og í þeim verða sæti fyrir nærri eitt þúsund farþega. Við þetta bætast svo þrjár brottfarir í viku til Kanarí (Gran Canaria) og þeir sem stefna á vetrarfrí á Kanaríeyjum hafa því úr nægu að moða. Það á líka við um jólaferðirnar sem vanalega seljast upp því samkvæmt heimasíðum ferðaskrifstofanna eru ennþá laus sæti í ferðirnar dagana fyrir jól.