Mun ekki sækja um stöðu ferðamálastjóra á ný

Ólöf Ýrr Atladóttir, ferðamálastjóri, mun láta af störfum eftir áramót eftir 10 ára starf. Hún telur ekki að markmiðið eigi að vera að fá hingað betur borgandi ferðamenn heldur frekar að fá bestu ferðamennina til landsins.

Ólöf Ýrr Atladóttir ásamt Taleb Rifai, aðalritara ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hann flutti ávarp á Ferðamálaþingi í vikunni og fór m.a. í dagsferð um Suðurland. Mynd: Ferðamálastofa

Staða ferðamálastjóra verður auglýst á næstunni en Ólöf Ýrr Atladóttir, sem skipuð var í stöðuna í ársbyrjun 2008, verður ekki meðal umsækjenda. Þetta kom fram í ræðu hennar á Ferðamálaþingi sem fór fram í vikunni. Þar sagði Ólöf Ýrr meðal annars að ráðherrum væri heimilt að auglýsa stöður embættismanna á fimm ára fresti og að undanförnum árum hafi verið vaxandi vilji meðal stjórnvalda til að nýta þessi heimildarákvæði og ráðherra [ferðamála] hafi í júní síðast liðnum ákveðið að gera það. „Ég hef um þó nokkurt skeið leitt hugann að þessum tímamótum og tók fyrir allnokkru þá ákvörðun að ef úr yrði að ráðherra nýtti sér heimild til þess að auglýsa embættið laust til umsóknar, þá myndi ég ekki sækjast eftir því að nýju. Ákvörðun ráðherra liggur fyrir og ég mun því hverfa úr embætti núna um áramótin,“ bætti ferðamálastjóri við.

Aðspurð segir Ólöf Ýrr, í svari til Túrista, að þetta sé persónuleg ákvörðun hennar sem tekin hafi verið áður en hún vissi nokkuð um hvort staðan yrði auglýst. Hún segist vera sátt við þessa ákvörðun sína og alls ekki ósátt við að ráðherra hafi ákveðið að nýta sér heimildina til að auglýsa stöðu ferðamálastjóra til umsóknar.

Fjölmennasta Ferðamálaþingið

Yfirskrift erindis Ólafar á Ferðamálaþingi var „Akstur á undarlegum vegi“ og þar fór hún yfir þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið í ferðaþjónustunni á síðustu árum og horfði fram á veginn. „Við Íslendingar eigum ekki endilega að leita eftir því að fá betur borgandi ferðamenn sem við drögum í dilka eftir tekjum, heldur eigum við að leita eftir því að fá bestu ferðamennina, sem gangast glaðir undir þær reglur sem við setjum okkur og öðrum og eru tilbúnir að eyða sínum tekjum í að öðlast upplifun sem verður þeim minnisstæð vegna fagmennsku þeirra sem sinntu gestgjafahlutverkinu. Við eigum að geta tekið við gagnrýni frá þessum ferðamönnum og nýtt okkur hana til góðs,“ sagði Ólöf Ýrr. Benti hún jafnframt á að við Íslendingar værum líka á faraldsfæti. „Við lifum öld ferðalangsins og við sjálf ferðumst út um allan heim til að njóta upplifunar og afslöppunar í nýju umhverfi og leitumst eftir því að sú upplifun nái einhverjum skilgreiningum á því sem telst ekta – allir vilja ferðast, en enginn vill vera ferðamaður. Við leikum ólík hlutverk eftir því hvar við erum stödd í heiminum, og stundum, því miður, leiðumst við til þess að líta svo á að það að vera á óþekktum slóðum gefi okkur leyfi til að hegða okkur með áður óþekktum og þá óþekkum hætti.“

Ný afstaðið ferðamálaþing var hið fjölmennasta frá upphafi og ávarpaði Talib Rifai, aðalritari ferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, gesti en hann má telja æðsta embættismann heims á sviði ferðamála.

Öll erindin sem flutt voru á þinginu er aðgengileg á heimasíðu Ferðamálastofu.