Áhuginn á Íslandsflugi frá Bandaríkjunum ennþá mikill

Mikil samkeppni dregur ekki úr áhuga forsvarsmanna United Airliens að hefja flug til Íslands.

Í sumarbyrjun hefur United Airlines flug til Íslands Mynd: United Airlines

Allt næsta sumar geta farþegar á leið milli Íslands og New York valið á milli áætlunarferða fjögurra flugfélaga því í maí hefur United Airlines Íslandsflug frá Newark flugvelli. Það er aðeins í flugi héðan til London sem samkeppnin er meiri því þeirri flugleið sinna 5 flugfélög. Á sama tíma og framboð á flugi til New York eykst þá dregur aðeins úr hinni geysimiklu fjölgun bandarískra ferðamanna hér á landi. Engu að síður innrituðu nærri helmingi fleiri bandarískir flugfarþegar sig í flug í Leifsstöð fyrstu átta mánuði ársins í samanburði við sama tíma í fyrra. Og þessi mikli vöxtur hefur ekki farið framhjá forsvarsmönnum United Airlines, eins stærsta flugfélags Bandaríkjanna. „Þó það hafi hægt á fjölgun evrópskra ferðamanna á Íslandi þá eykst eftirspurnin eftir flugi frá Bandaríkjunum til Íslands ennþá um meira en 30% á milli ára. Hinni nýju flugleið okkar til Íslands er ætlað að mæta þessari miklu eftirspurn bandarískra ferðamanna,” segir Gudrun Gorner, talskona United Airlines í Evrópu, í svari til Túrista.

Þotur United Airlines munu fljúga daglega til Íslands næsta sumar og lenda á Keflavíkurflugvelli um klukkan átta að morgni. Farþegarnir eru þá komnir nægjanlega tímanlega til að halda áfram nokkrum klukkustundum síðar til Evrópu, t.d. með SAS og Lufthansa, samstarfsfélögum United. Gudrun Gorner segir þó að markhópurinn fyrir Íslandsflug félagsins sé fyrst og fremst bandarískir ferðamenn á leið til Íslands. Ekki þeir sem ætli sér aðeins að millilenda á Keflavíkurflugvelli.

Sem fyrr segir er samkeppnin hörð um farþega milli Íslands og New York því Icelandair flýgur til bæði JFK og Newark flugvallar, Delta til JFK og WOW til Newark og þaðan mun United einnig fljúga. En hvers mega íslenskir farþegar United vænta þegar þeir fljúga með ykkur? „United býður viðskiptavinum sínum upp á víðfeðmasta leiðakerfi heims sem inniheldur til að mynda starfsstöðvar í Chicago, Denver, Houston, Los Angeles, New York/Newark, San Francisco and Washington, D.C. Og bara frá New York/Newark fljúga þotur United og United Express um 500 ferðir á dag til meira en 150 áfangastaða og þetta er það mesta sem þekkist í flugi innan N-Ameríku og yfir Atlants- og Kyrrahafið og þetta er sömuleiðis mesta framboðið á flugi til Rómönsku Ameríku,“ segir Gudrun Gorner. Hún bætir því við að í fyrra hafi meira en 143 milljónir farþegar flogið með United til þeirra 338 flugvalla sem félagið flýgur til og dreifast áfangastaðirnir yfir fimm heimsálfur. Í flugi United, til og frá Keflavíkurflugvelli, verður boðið upp á þrjú farrými og fylgir farangur með ódýrustu miðunum. Einnig allar veitingar og áfengir drykkir.

Þegar United hóf sölu á farmiðum til Íslands fyrir mánuði bar Túristi saman fargjöld United og samkeppnisaðilanna á í fluginu til New York. Notast var við jómfrúarflugið 24.maí og heimferð viku síðar. Það er skemmst frá því að segja að ódýrustu fargjöld félaganna fjögurra er nær óbreytt nema nú hefur Icelandair hafið sölu á farmiðum án farangursheimildar. Þeir sem vilja hins vegar taka með þyngri handfarangur, velja sér sæti og innrita farangur borga mismunandi mikið fyrir miðana sína.


Smelltu hér til að gera eigin verðsamanburð á flugmiðum til New York