Airberlin þotan fær að fljúga frá Keflavíkurflugvelli

Forsvarsmenn þrotabús Airberlin hafa gert upp skuld fyrirtækisins við Isavia.

Mynd: Airberlin

Snjóplógarnir sem settir voru fyrir framan og aftan Airbus þotu Airberlin á Keflavíkurflugvelli í þarsíðustu viku voru fjarlægðir seinnipartinn í gær eftir að skuld flugfélagsins við Isavia var gerð upp. „Flugfélagið hefur borgað og vélin getur farið sína leið,“ segir Guðni Sigurðsson, talsmaður Isavia, í svari til Túrista.

Þar með lýkur nærri tveggja vikna kyrrsetningu vélarinnar en málið vakti töluverða athygli í þýskum fjölmiðlum enda hefur Airberlin verið í greiðslustöðvun síðan í ágúst og lagði félagið niður starfsemi á föstudaginn sl.

Á vef Víkurfrétta má sjá myndir sem teknar voru í gærkvöldi þegar plógarnir voru fjarlægðir frá Airbus A320 þotu Airberlin. En gera má ráð fyrir að þotan verði senn máluð í litum easyJet enda hefur breska flugfélagið fest keypt 25 þotur af sömu tegund af þrotabúi Airberlin.