Airberlin: „Tschüss, auf Wiedersehen and bye bye“

Stjórnendur Airberlin hafa skellt í lás og þotur félagsins komnar í heimahöfn, nema sú sem Isavia kyrrsetti fyrir 10 dögum síðan.

Mynd: Airberlin

Í sumarlok óskuðu forsvarsmenn Airberlin eftir greiðslustöðvun í von um að geta leyst úr vanda þessa næststærsta flugfélags Þýskalands. Það kom hins vegar á daginn að dagar félagsins væru taldir og á föstudaginn lagði Airberlin endanlega niður starfsemi. Þar með lýkur 38 ára sögu Airberlin en félagið hefur boðið upp á Íslandsflug frá árinu 2006 og hefur á tímabilum verið umsvifamesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Gera má ráð fyrir að félagið hafi flutt á bilinu 35 til 40 þúsund erlenda ferðamenn hingað til lands þarsíðasta sumar þegar Íslandsflug Airberlin náði hámarki. Þá voru ferðirnar að jafnaði um þrjár á dag frá samtals fimm þýskum borgum og auk þess bauð dótturfélagið flyNiki upp á ferðir hingað frá Vínarborg.

Þrátt fyrir mikil umsvif Airberlin segjast forsvarsmenn Isavia ekki sjá ástæðu til að gera breytingar á farþegaspá Keflavíkurflugvallar eftir brotthvarf þýska félagsins. Og það er skiljanlegt í ljósi þess að Icelandair hefur áætlunarflug til Berlínar eftir helgi og WOW air fjölgar vikulegum ferðum sínum þangað úr 7 í 8. Hins vegar dettur allt áætlunarflug til Dusseldorf niður í vetur. Þegar sumaráætlun næsta árs verður endanlega tilbúin kemur í ljós hvort þýsk eða íslensk flugfélög bæti við ferðum til borga eins og Munchen, Stuttgart og Hamborg og fylli þannig það skarð sem Airberlin skilur eftir sig.

Nú eru 10 dagar síðan að Isavia kyrrsetti þotu Airberlin vegna skuldar flugfélagsins sem komin var til áður en félagið fór í greiðslustöðvun. En allt frá því að stjórnendur Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun hefur félagið þurft að staðgreiða sín gjöld á Keflavíkurflugvelli. Í tilkynningu sem þáverandi stjórnendur Airberlin sendu frá sér í kjölfar kyrrsetningarinnar segir að það sé þeirra mat að aðgerð Isavia sé ólögleg þar sem að lánadrottnar verði að gera kröfu á þrotabú félagsins vegna ógreiddra gjalda fyrir greiðslustöðvunina sem tók gildi 15. ágúst. Það bíður því væntanlega þrotabússtjóra Airberlin að semja við Isavia um lausn málsins en í lögum um loftferðir segir að heimilt sé að aftra för loftfars af flugvelli uns gjöld eru greidd eða trygging sett fyrir greiðslu. Hvort að þessi regla eigi líka við þegar um er að ræða flugfélag í greiðslustöðvun kemur svo væntanlega í ljós á næstunni en almenna reglan er sú að á meðan greiðslu­stöðvun stend­ur er skuld­ara óheim­ilt að ráðstafa eignum sínum og þar með greiða skuldir.