Auglýst eftir ferðamálastjóra

Ólöf Ýrr Atladóttir mun ekki sækja um stöðu ferðamálastjóra á ný og því mun nýr aðili taka við embættinu í byrjun næsta árs. Það gæti orðið eitt síðasta verk fráfarandi ráðherra ferðamála að skipa í stöðuna.

Ferðamenn við Námaskarð Mynd: Iceland.is

Það er ekki nauðsynlegt að nýr ferðamálastjóri hafi reynslu af ferðaþjónustu en viðkomandi skal vera vanur stjórnandi, með meistarapróf og vera framkvæmdaglaður. Þetta er meðal þess sem kemur fram í auglýsingu á vef stjórnarráðsins þar sem staða ferðamálastjóra til næstu fimm ára er auglýst. Frestur til að skila inn umsóknum rennur út eftir hálfan mánuð og skipunartíminn hefst á nýársdag en þá eru 10 ár liðinn frá því að Ólöf Ýrr Atladóttir tók við embættinu. Hún hyggst ekki sækja um stöðuna á ný líkt og Túristi greindi frá.

Það er ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem skipar nýjan ferðamálastjóra og ef ekki verður mynduð ríkisstjórn strax eftir kosningar gæti það orðið hlutskipti fráfarandi ráðherra ferðamála, Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, að ráða nýja ferðamálastjóra. En það var ákvörðun hennar að auglýsa stöðuna á ný.

Starf ferðamálastjóra gæti tekið töluverðum breytingum á ráðningatímabilinu því samkvæmt starfsauglýsingunni er fyrirséð að skipan ferðamála hér á landi taki breytingum á næstu misserum. „Við þá vinnu og framtíðarþróun umhverfis og aðbúnaðar greinarinnar mun ferðamálastjóri gegna mikilvægu hlutverki,“ segir jafnframt í auglýsingunni.

Samkvæmt nýlegum úrskurði kjararáðs þá fær ferðamálastjóri 925 þúsund krónur í mánaðarlaun auk 30 eininga á mánuði fyrir yfirvinnu.