Leggja tímabundin flugvöll fyrir HM

Það eru þónokkrar líkur á að íslenska karlalandsliðið í leiki í borginni Saransk í Mordóvíu en þar keppast heimamenn við að koma upp flugvelli áður en heimsmeistaramótið hefst í júní.

Mynd: Peter Glaser/Unsplash

Það bendir margt til þess að íslenska landsliðið verði í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla fyrir HM í Rússlandi. Ef það gengur eftir þá eru líkurnar 2 á móti 7 að strákarnir spili sinn fyrsta leik í borginni Saransk í Mordóvíu. Annað hvort á sjálfan þjóðhátíðardaginn eða á kvenréttindadeginum þann 19. júní. Ef G-riðill verður hlutskipti liðsins þá bíður þess leikur í Saransk þann 28. júní og heildarlíkurnar á íslenskum leik í borginni er því töluverður. Aðeins þrjár aðrar borgir eru jafn líklegar til að fá íslenska heimsókn í riðlakeppninni og það eru Sankti Pétursborg, Ekaterinburg og Nizní Novgorod.

Saransk er hins vegar fámennust þeirra borga sem hýsa HM í sumar og jafnframt sú eina sem er ekki með nothæfan flugvöll. Því á hins vegar að kippa í liðinn fyrir sumarið og nú er unnið hörðum höndum að því að koma upp flugbraut og flugstöð við borgina svo hægt sé að taka á móti keppendum og áhangendum þeirra í sumar eins og farið er yfir í frétt ATP (sjá myndband). Þar kemur líka fram að íbúar þessarar 300 þúsund manna borgar eru mjög áhugasamir um að taka að sér sjálfboðaliðastörf í tengslum við heimsmeistaramótið í sumar. En reynsla sumra þeirra af því að taka á móti útlendingum er þó takmörkuð eins og fram kemur.

Ef til þess kemur að Ísland spili í Saransk og að boðið verður upp á flug þangað frá Íslandi þá mun taka um 5 tíma að fljúga frá Keflavíkurflugvelli. Hins vegar tekur um 8 til 9 tíma að fara með lest þá 650 kílómetra sem skilja að Saransk og Moskvu.

Hér má svo sjá kynningarmyndband frá FIFA fyrir Saransk