Ennþá hægt að bóka far með Airberlin frá Keflavíkurflugvelli

Stjórnendur Airberlin hafa aflýst ferðum félagsins um helgina en það er útlit fyrir að félagið ætli sér að snúa tilbaka á þriðjudag.

airberlin 860
Mynd: Airberlin

Á fimmtudagskvöld var Airbus þota Airberlin kyrrsett á Keflavíkurflugvelli vegna skuldar félagsins við Isavia. Forsvarsmenn Airberlin telja kyrrsetninguna ólöglega og hafa aflýst flugi félagsins hingað til lands um helgina, það á til að mynda við um brottfarir félagsins héðan eftir miðnætti. Haft er eftir Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa Isavia, á vef RÚV, að engin ástæða sé fyrir þýska flugfélagið að aflýsa flugi og að ekkert hafi verið gert til að koma í veg fyrir áframhaldandi flug félagsins til Íslands.

Það lítur hins vegar út fyrir að Airberlin ætli sér að fljúga milli Íslands og Berlínar í næstu viku því ennþá er hægt að bóka sæti í flug félagsins hingað annað kvöld og þar með brottförina frá Keflavíkurflugvelli aðfaranótt þriðjudags og heim aftur á fimmtudag. Kostar farmiðinn tæpar 37 þúsund krónur. Sömu daga eru líka í boði farmiðar héðan til Dusseldorf á rúmar 45 þúsund krónur. Síðustu ferðir Airberlin frá Keflavíkurflugvelli eru svo á áætlun skömmu eftir miðnætti þann 27. október til bæði Berlín og Dusseldorf og kostar stakt fargjald um 14 til 18 þúsund krónur. Fleiri ferðir eru hins vegar ekki í boði með Airberlin enda hefur fyrirtækið verið í greiðslustöðvun frá því í ágúst og mun að öllu óbreyttu leggja niður starfsemi nú í lok október.

Um mánaðarmótin hefur Icelandair svo flug til Berlínar og þar með verða áfram tvö flugfélög með áætlunarferðir héðan til þýsku höfuðborgarinnar því borgin hefur verið fastur liður í áætlun WOW air allt frá stofnun félagsins.