Ennþá hægt að taka skíðin með án aukagjalds

Farangursheimildina hjá Icelandair má nota fyrir skíðabúnað en flugfélagið hefur boðað breytingar í haust.

skidi sviss t
Ferðalagið í svissnesku skíðabrekkurnar hefur styst með beinu flugi til Zurich. Mynd: Myswitzerland.com

Ef stefnan er sett á skíðasvæðin í Ölpunum í vetur þá hefur beinu flugleiðunum fjölgað um eina frá því í fyrra því í vetur mun Icelandair fljúga alla fimmtudaga og sunnudaga til Zurich. Auk þess flýgur WOW vikulega til Salzburg, Icelandair daglega til Munchen og easyJet tvisvar í viku til Basel frá og með byrjun febrúar. Auk þess bjóða Vita og Úrval-Útsýn upp á pakkaferðir í tengslum við leiguflug til Verona en ekki eru í boði stakir flugmiðar í þær ferðir. Valkostirnir eru því ekki margir og ennþá færri ef fólk vill fara í styttri skíðaferðir en vikulangar.

Þeir sem kjósa svo að standa á eigin skíðum í brekkunum vita að flugfélögin rukka töluvert fyrir að ferja skíðabúnaðinn til útlanda. Hjá WOW air er gjaldið 11.198 krónur, easyJet tekur 10.464 krónur (84evrur) og Icelandair 9.400 kr. Hjá því síðastnefnda er hins vegar hægt að innrita skíðin í staðin fyrir ferðatösku og þannig komast hjá aukagjaldinu því hjá Icelandair fylgir farangursheimild með ódýrustu fargjöldunum. Stjórnendur Icelandair hafa hins vegar boðað breytingar á því nú í haust en hvort þær verði til þess að farmiði með skíðabúnaði hækki eða lækki í verði skal ósagt látið. Í dag er þó hægt að finna flug, báðar leiðir, með Icelandair til Zurich og heim aftur á 40.125 kr. á nokkrum dagsetningum í vetur og innifalið í verðinu er heimild fyrir innritaðan farangur og handfarangurstösku sem má vera 10 kíló. Til samanburðar kostar ódýrasti farmiðinn með WOW til Salzburg með skíðum og handfarangri 2 þúsund krónum meira. Farmiðarnir með Icelandair til Munchen eru ennþá ódýrari eða á tæpar 36 þúsund krónur.

Kosturinn við skíðaflug til Zurich er hins vegar sá að þaðan ganga lestir með jöfnu millibili í átt að skíðasvæðunum, t.d. til nokkurra þeirra sem komast á lista Telegraph yfir þau bestu í Sviss.