Farþegum í innanlandsflugi fjölgar lítillega

Um 385 þúsund farþegar fóru um flugvelli landsins á fyrri helmingi ársins ef Keflavíkurflugvöllur er frátalinn. Fjöldinn er mun minni en í fyrri uppsveiflum.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Nærri fjórtán þúsund fleiri farþegar nýttu sér ferðir frá innanlandsflugvöllunum á fyrri helmingi ársins og nam heildarfjöldinn 385 þúsundum. Hlutfallslega var aukningin langmest á Akureyri eða um tíund en samdrátturinn mestur á Húsavík og í Vestmannaeyjum eða rúmlega 13 prósent samkvæmt nýjum tölum frá Isavia. Þar sem flestar ferðir eru til og frá Reykjavík þá stóð flugvöllurinn í Vatnsmýri undir rúmlega helmingi farþegafjöldans og þar fjölgaði ferðum um 2,3% fyrstu sex mánuðina en á landsvísu nam aukningin 3,5%. Viðbótin á fyrri helmingi síðasta árs var nærri tvöfalt meiri eða 6,7%.

Sem fyrr er vöxturinn á Keflavíkurflugvelli miklu meiri en í innanlandsfluginu en þar fjölgaði farþegum um 40% á tímabilinu janúar til júní og til samanburðar má nefna að það fer nærri að brottfarar- og komufarþegar á Keflavíkurflugvelli í febrúar hafi verið jafnmargir og heildarfjöldi farþega á innanlandsflugvöllunum fyrstu sex mánuði ársins.

Eins og sjá má á neðra súluritinu þá hefur fjöldi farþega í innanlandsflugi haldist í hendur við almenna þróun í efnahagslífinu síðastliðinn aldarfjórðung. Þannig voru þeir langflestir í uppsveiflunum í kringum aldarmótin og aftur á metárunum 2007 og 2008 þegar fjöldinn fór upp í um 480 þúsund fyrstu sex mánuðina. Hagvöxtur síðustu ára hefur hins vegar ekki skilað sér í álíka fjölda farþega í innanlandsfluginu og ekki heldur sú staðreynd að fjöldi erlendra ferðamanna hefur fimmfaldast á milli áranna 2008 og 2017,  úr 184 þúsund í 974 þúsund á fyrri helmingi hvers árs. Þó ber að hafa í huga nýlegar skekkjur í talningunni. Eins má velta því upp hvort farþegum í innanlandsflugi hefði í raun farið fækkandi síðustu ár ef ekki væri fyrir erlendu ferðamennina.

TENGDAR GREINAR: Innanlandsflugið hér ekki endilega dýrastMikilvæg tenging innanlands- og millilandaflugs