Langt ferðalag framundan til Rússlands

Ef beinum flugsamgöngum milli Íslands og Rússlands verður ekki komið á fyrir næsta sumar þá bíður stuðningsmanna íslenska landsliðsins langt ferðalag, bæði til Rússlands og milli leikja.

Kul Sharif moskan í Kazan. Þar í borg leikur íslenska landsliðið þann 24. júní ef það lendir í H-riðli. Mynd: Daniil Silantev/Unsplash

Leikir riðlakeppninnar á HM í Rússlandi fara fram á 12 leikvöngum í 11 borgum og líkt og á EM í Frakklandi þá halda liðin ekki til á einum stað heldur spila leikina sína þrjá á mismunandi stöðum. Gestgjafarnir sjálfir spila til að mynda í Moskvu, Sankti Pétursborg og í Samara en átján hundruð kílómetrar skilja að þær tvær síðarnefndu. Það kemur svo í ljós þann fyrsta desember í hvaða borgum íslenska liðið mun leika en þá verður dregið í riðla í Kreml í Moskvu. Þá geta þeir sem ætla að fylgja liðinu til Rússlands farið að leggja drög að ferðalaginu þangað en eins og sjá má á kortinu hér fyrir neðan þá eru borgirnar 11 á víð og dreif um Rússland og því oft mjög langt á milli leikstaða. Innanlandsflug getur því verið heppilegasti kosturinn þó lestarferðir séu oftar en ekki líka í boði, þær geta hins vegar hæglega tekið 10 til 20 klukkutíma.

Samkvæmt úttekt Mbl í dag þá eru átta mögulegar samsetningar á borgum fyrir leiki Íslands og einfaldasti kosturinn, fyrir þá sem vilja á alla leiki riðlakeppninnar, er líklega sá að Ísland lendi í B-riðli og leiki þá í Sankti Pétursborg, Moskvu og Kalínígrad dagana 15. til 25. júní. Milli tveggja fyrrnefndu borganna má fara með lest á fjórum tímum og innanlandsflugið með Aeroflot frá Moskvu til Kalínígrad er stutt og ódýrt. Frá síðarnefndu borginni má svo koma sér til Gdansk í Póllandi eða Vilnius í Litháen en frá þessum tveimur borgum er flogið beint til Íslands.

Ferðalagið verður hins vegar flóknara ef Ísland þarf að leika einn til tvo leiki í suðurhluta Rússlands en eins og staðan er í dag kostar flugið héðan til flestra rússnesku borgannar í júní rúmlega 100 þúsund krónur en um helmingi minna ef ferðinni er heitið til Sankti Pétursborgar eða Moskvu. Nota má töfluna hér fyrir neðan til að fá hugmynd um hvaða flug hentar best og hvað gistingin kostar í hverri borg fyrir sig.

Það stefnir þó í að það verði boðið upp á beint flug frá Íslandi til Rússlands næsta sumar, í það minnsta leiguflug á vegum flugfélaganna eða ferðaskrifstofa. En eins og sjá má þá gæti flugið til Rússlands líka tekið töluverðan tíma eða 5 til 6 klukkustundir í mörgum tilfellum.