Fjölskylduferðir Iceland Beyond tilnefndar í Bretlandi

Sérstök áhersla á ferðalög barnafjölskyldna skilaði sér í tilnefningu hjá útbreiddu ferðatímariti.

Mynd: Iceland Beyond

Árlega verðlauna lesendur breska tímaritsins Family Traveller þau ferðaþjónustufyrirtæki sem sinna best fjölskyldum og að þessu sinni er íslenska ferðaskrifstofan Iceland Beyond tilnefnd í flokknum „Best Activity Specialist for Families“. Aðspurð um þennan árangur segir Birna G. Guðmundsdóttur, hjá Iceland Beyond, að hjá ferðaskrifstofunni hafi verið lögð sérstök áhersla á fjölskyldureisur og ráðgjöf varðandi allt sem þeim viðkemur, t.d. val á skoðunarferðum, afþreyingu, matsölustöðum og gistingu. Nýverið skipulagði til að mynda Iceland Beyond ferðalag fyrir fjölskyldu með sex börn sem öll voru undir 14 ára aldri.

Sem fyrr segir er tímaritið Family Traveller breskt en frá Íslandi eru reglulegar samgöngur til 11 breskra flugvalla og segir Birna að viðskiptavinir Iceland Beyond komi aðallega frá Manchester, Birmingham, Bristol og suðurhluta Lundúna. Eins segir hún að fólk sem nýti sér „stop over” þjónustu flugfélaganna leiti jafnframt til ferðaskrifstofunnar.

Hér má taka þátt í netkosningu Family Traveller en tímaritið sjálft kemur út í 43 þúsund eintökum.