Icelandair býður farmiða án farangurs

Farþegar Icelandair sem ferðast létt geta fengið ódýrara far en hinir. Það borgar sig hins vegar ekki að kaupa töskuna aukalega með lægsta fargjaldinu.

kef taska 860
Farþegar Icelandair geta nú sparað sér töluvert með því að ferðast aðeins með handfarangur. Mynd: Isavia

Hingað til hefur farangursheimild verið hluti af ódýrustu fargjöldunum hjá Icelandair en núna er hins vegar hægt að bóka flugmiða á heimasíðu félagsins án þessarar heimildar. Samkvæmt athugun Túrista kosta þessir miðar 3.600 krónum minna, aðra leiðina, en farmiði með innritaðri tösku innan Evrópu en munurinn er 4.900 krónur ef flogið er vestur um haf. Hins vegar þarf að greiða 5.280 krónur fyrir að bæta tösku við ódýrustu farmiðana og sá möguleiki borgar sig þar af leiðandi ekki. Af bókunarvél Icelandair að dæma þá fá áfram allir farþegar félagsins að velja sér sæti án aukagreiðslu og eins eru drykkir innifaldir í öllum fargjöldum og aðgangur að afþreyingarkerfi.

Þessar breytingar hafa verið í pípunum hjá Icelandair lengi því í byrjun febrúar boðaði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, farmiða án farangurs meðal annars til að gera flugfélagið sýnilegra á flugbókunarsíðum. En síðustu ár hafa sífellt fleiri hefðbundin flugfélög tekið það upp eftir lággjaldaflugfélögum að rukka aukalega fyrir farangur. Þannig þurfa þeir sem fljúga með British Airways, Finnair og Lufthansa frá Keflavíkurflugvelli að borga meira ef handfarangur dugar ekki.

Samkvæmt verðathugun Túrista á skíðafargjöldum í gær þá kostuðu ódýrustu farmiðarnir með Icelandair til Zurich 40.180 krónur í janúar en þeir eru núna á 32.935 krónur og verðmunurinn 7.190 krónur. Eins hefur flutningur á skíðum með Icelandair lækkað úr 9.400 krónum í 7.520 kr. Áður var þó hægt að innrita skíðin í stað farangurs.

Uppfært:

Skömmu eftir birtingu fréttar Túrista sendi Icelandair út tilkynningu þar sem segir að félagið bjóði nú nýjan valkost, Economy Light, sem gerir viðskiptavinum kleift að ferðast á lægra verði án þess að innritaður farangur sé innifalinn í verðinu. Þeir sem bóka Economy Light munu njóta sömu þjónustu um borð og aðrir farþegar og 10 kg handfarangur er innifalinn.

„Við erum að gera ýmsar breytingar á þjónustu okkar og þeirra á meðal er þessi nýi valkostur. Hann hentar mjög vel fyrir þá sem eru á leið í stutta helgarferð eða viðskiptaferð þar sem ekki þarf mikinn farangur. Þeir farþegar munu eftir sem áður njóta góðs af þjónustu Icelandair – með afþreyingarkerfi, óáfengum drykkjum í boði hússins og þægilegu sætaplássi“, segir Guðmundur Óskarsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Icelandair. Hann bætir því við að gert sé ráð fyrir því að Economy Standard, þar sem innritaður farangur er innifalinn, muni áfram verða vinsælasti valkosturinn.