Forsetinn fælir ferðamenn frá

Þeim fækkaði verulega útlendingunum sem sóttu Bandaríkin heim á fyrsta fjórðungi ársins og ferðaþjónusta landsins varð því af um 285 milljörðum króna.

trump
Mynd: Hvíta húsið

Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, er umsvifamikill í ferðaþjónustu enda eigandi glæsihótela á víð og dreif um Bandaríkin. Pólitískur ferill hans hefur þó dregið úr vinsældum hótelanna og það eru einnig vísbendingar um að Trump fæli útlendinga frá Bandaríkjunum eins og þau leggja sig. Á fyrsta fjórðungi ársins fækkaði nefnilega erlendum túristum þar í landi um nærri 700 þúsund sem nemur 4,2% samdrætti samkvæmt frétt New York Times. Til samanburðar þá fjölgaði útlendu ferðamönnunum um 14,3% fyrstu mánuðina sem Barack Obama fór með völdin í Hvíta húsinu.

Það er þó einföldun að skella allri skuldinni á Trump því eins og bent er á í grein New York Times þá hafa skotárásir og vopnaburður Bandaríkjamanna einnig dregið úr áhuga útlendinga á að sækja landið heim. Ferðabann Trump á þegna nokkurra múhameðstrúarríkja hefur einnig haft sitt að segja. Tap ferðaþjónustu Bandaríkjanna vegna samdráttarins er metið á 285 milljarða króna.