Frambjóðendur svara ferðaþjónustunni

Áformin um að tvöfalda virðisaukaskatt á ferðaþjónustu hafa verið allt um liggjandi í pólitískri umræðu um ferðaþjónustuna í tíð fráfarandi ríkisstjórnar. En hvað gæti næsta kjörtímabil boðið upp á? Um það veðrur rætt á opnum fundi frambjóðenda og fagfólks í ferðaþjónustunni á miðvikudag.

Mynd: Curren Podlesny/Unsplash

Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir opnum fundi um stöðu ferðaþjónustunnar með forystumönnum stjórnmálaflokkanna í Hörpu á miðvikudagsmorgun. Tilefnið er að ræða stöðu ferðaþjónustunnar og þau tækifæri og áskoranir sem við stöndum frammi fyrir í þeirri vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er samkvæmt tilkynningu frá SAF. Þar segir jafnframt að frambjóðendur verðir inntir eftir stefnu sinna flokka þegar kemur að ferðaþjónustu og spurðir hvernig þeir sjái fyrir sér að festa atvinnugreinina í sessi til langrar framtíðar? 

Búast má við því að umræðu um færslu ferðaþjónustunnar upp í efsta þrep virðisaukaskatts verði jafnframt til umræða þessi áform ríkisstjórnarinnar hafa verið í brennidepli allt frá því að þau voru kynnt í lok vetrar. Þá sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, að ekki væru lengur rök fyrir því að ferðaþjónustan fengi sérstakar undanþágur varðandi virðisaukaskatt. Það kvað hins vegar við nýjan tón í ræðu Þórdísar Kolbrúnar á Ferðamálaþingi í byrjun mánaðar þar sem hún sagði skattabreytinguna ekki hafa verið draumatillögu frá sínum bæjardyrum séð.

Þórdís Kolbrún verður fulltrúi Sjálfstæðisflokksins á fundinum en hann sækja líka Helga Vala Helgadóttir frá Samfylkingu, Helgi Hrafn Gunnarsson frá Pírötum, Inga Sæland frá Flokki fólksins, Katrín Jakobsdóttir frá VG,  Óttarr Proppé frá Bjartri framtíð, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson frá Miðflokknum, Sigurður Ingi Jóhannsson frá Framsókn og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir frá Viðreisn.

Hægt verður að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á heimasíðu SAF og þar fer líka fram skráning.