Gauksmýri og Bjórböðin verðlaunuð

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi fór fram fyrir helgi og þar fengu nokkur fyrirtæki á svæðinu viðurkenningu.

Bjórböðin voru Sproti ársins fyrir norðan. Mynd: Markaðsstofa Norðurlands

Fagfólk í ferðamennsku á Norðurlandi kom saman í Mývatnssveit á fimmtudaginn og þá voru árlegar viðurkenningar Markaðsstofu Norðurlands veittar. Í flokknum Fyrirtæki ársins varð Gauksmýri í Húnaþingi vestra fyrir valinu sen sú viðurkenningin er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. „Fyrirtækið hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun og er með höfuðstöðvar á Norðurlandi,“ segir í tilkynningu.

Bjórböðin, Áskógssandi, eru Sproti ársins fyrir að hafa skapað eftirtektarverða nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi. Þá fékk Ólöf Hallgrímsdóttir í Vogafjósi, Mývatnssveit, viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi.

Jóhann Albertsson, stofnandi Gauksmýri, ásamt Arnheiði Jóhannsdóttur frá Markaðsstofu Norðurlands.
Ólöf Hallgrímsdóttir í Vogafjósi.