Hefur ekki áhrif á aðrar flugferðir Airberlin

Airbus þota næststærsta flugfélags Þýskalands var kyrrsett á Keflavíkurflugvelli á miðnætti vegna vangreiddra gjalda. Þrír farþegar urðu strandaglópar vegna málsins.

Mynd: Airberlin

Allt frá því forsvarsmenn Airberlin fóru fram á greiðslustöðvun í ágúst hefur félagið þurft að greiða lendingargjöld sín eina viku fram í tímann. Áður en til þess kom hafði félagið hins vegar safnað upp skuld hjá Isavia sem ennþá er ógreidd og því gripu forsvarsmenn flugvallarins til þess úrræðis í gærkvöldi að kyrrsetja aðra af tveimur þotum Airberlin sem þá var við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Af þessum sökum var brottför félagsins til Dusseldorf aflýst en hægt var að koma öllum farþegunum, nema þremur, um borð í þotu Airberlin sem hélt til Tegelflugvallar í Berlín skömmu eftir miðnætti.

Íslandsflug Airberlin leggst af um mánaðarmótin en þangað til er félagið með nokkrar ferðir á dagskrá hingað til lands og mun kyrrsetningin ekki hafa áhrif á þær. Þar á meðal flug Airberlin til Berlínar á miðnætti. Að sögn Guðna Sigurðssonar, talsmanns, Isavia, nemur skuld Airberlin við Isavia umtalsverðri upphæð. Aðspurður segir Guðni að engin önnur flugfélög á Keflavíkurflugvelli séu í álíka vanskilum.

Þotan sem kyrrsett var er af tegundinni Airbus 320 og gera má ráð fyrir að hún sé ein af þeim 144 flugvélum sem Lufthansa, stærsta flugfélag Þýskalands, ætlar að kaupa af Airberlin þegar rekstur félagsins stöðvast á næstunni.