HM ferðin hefst í Túngötu

Þeir sem eru með miða á leik á HM þurfa ekki vegabréfsáritun en allir aðrir þurfa að heimsækja rússneska ræðismanninn hér á landi.

fotboltavollur liane metzler
Mynd: Liane Metzler/Unsplash

Íslenskum ríkisborgurum er ekki hleypt inn fyrir rússnesk landamæri nema þeir hafi fengið sérstaka vegabréfsáritun. Og til að fá hana þarf að fara á ræðismannaskrifstofu Rússa í Túngötu með nýlega passamynd, vegabréf sem gildir í að minnsta kosti hálft ár eftir að ferðalagi lýkur og staðfestingu á að viðkomandi sé með ferðatryggingu sem gildi í Rússlandi. Eins þarf að greiða 4.500 krónur fyrir vegabréfsáritunina en verðið er tvöfalt hærra ef sótt er um skyndiútgáfu. Nánari upplýsingar má finna á vef ræðismannaskrifstofu Rússlands. Öðru máli gegnir um handhafa miða á leiki á HM því þeir þurfa aðeins að sækja um sérstakt „Fan ID“ sem gildir sem vegabréfsáritun. Gildir það á meðan keppninni stendur. Þetta fyrirkomulag ætti því að minnka álagið á rússneska ræðismanninum töluvert en þeir sem ætla til Rússlands. Eins eru þessi áritunarmál til skoðunar í íslenska utanríkisráðuneytinu eins og Mbl greindi frá.

Krafan um vegabréfsáritun er ekki það eina sem gerir ferðalagið á HM í Rússlandi flóknara en reisurnar á EM í Frakklandi í fyrra. Þangað var nefnilega töluvert framboð á áætlunarflugi frá Keflavíkurflugvelli en aftur á móti eru engar flugsamgöngur milli Íslands og Rússlands. Á því gæti hins vegar orðið breyting innan skamms því bæði íslensku flugfélögin hafa verið að horfa til flugs til Asíu og þá liggur leiðin yfir Rússland. Rússnesk stjórnvöld hafa hins vegar verið gjörn á að veita aðeins leyfi til yfirflugs ef viðkomandi flugfélag hefur jafnframt áætlunarflug til Rússlands. Og telja má næsta víst að eftir úrslit kvöldsins þá muni stjórnendur Icelandair og WOW air skoða hvaða kostir eru í boði en fyrst þarf að koma í ljós hvar í Rússlandi íslenska liðið spilar leiki sína í riðlakeppninni. Þar kemur ýmislegt til greina því leikið verður í Moskvu, Sankti Pétursborg, Kazan, Sochi, Kaliningrad, Nizhny Novgorod, Volgograd, Rostov-on-Don, Samara, Ekaterinburg og Saransk.

Fréttin var uppfærð með upplýsingum um hið sérstaka Fan ID sem kemur í stað vegabréfsáritunar. Túristi biður afsökunar á því að hafa ekki haft þetta á hreinu þegar fréttin var birt.