Hvar gista Pólverjarnir?

Hótelnóttum Pólverja fækkaði í september jafnvel þó pólskum flugfarþegum hafi fjölgað um nærri þrjá fjórðu.

Pólskum flugfarþegum fjölgaði um 74,4% í september. Mynd: Isavia

Að jafnaði innrituðu 222 Pólverjar sig í flug frá Keflavíkurflugvelli á degi hverjum í september síðastliðnum og nam aukning 74,4% frá sama tíma í fyrra samkvæmt talningum Ferðamálastofu. Í heildina voru pólsku farþegarnir 6.661 í september og fjölgaði þeim um 2.842 frá því í september í fyrra. Það að pólskum flugfarþegum í Leifsstöð fjölgi milli ára þarf ekki að koma á óvart því flugumferðin milli Íslands og Póllands hefur aukist verulega síðustu misseri með stórauknum umsvifum Wizz Air hér á landi. En þetta ungverska lággjaldaflugfélag flýgur nú til Íslands frá fjórum pólskum borgum allt árið um kring. Auk þess flýgur WOW air héðan til Varsjár yfir sumarið.

Hins vegar vekur athygli að á sama tíma og Pólverjunum fjölgar svona mikið að þá fækkar pólskum gestum á íslenskum hótelum. Þannig fækkaði gistinóttum þeirra um 14 af hundraði í september samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árin á undan hefur gistinóttum Pólverja á hótelum hins vegar farið fjölgandi eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan.

Skýringarnar á því að pólskum gistinóttum fækkar núna kunna að vera nokkrar. Fyrir það fyrsta þá eru margir Pólverjar með fasta búsetu hér á landi og þurfa því ekki að kaupa sér gistingu en þeir eru engu að síður taldir sem ferðamenn þegar þeir fljúga til og frá Keflavíkurflugvelli. Í öðru lagi þá má gera ráð fyrir að stóraukið framboð á flugi hingað frá Póllandi hafi haft þau áhrif að sífellt fleiri Pólverjar ferðist til Íslands til að heimsækja landa sína hér. Þessi hópur gistir þá væntanlega oftar en ekki í heimahúsi. Þriðja ástæðan fyrir þróuninni kann að vera sú að ásókn í aðrar tegundir gistingar en hótel kann að hafa aukist. Eins verður ekki horft fram hjá því flugáætlun Wizz Air passar í mörgum tilfellum vel við Ameríkuflug frá Keflavíkurflugvelli og þannig geta farþegar flugfélagsins fundið heppileg tengiflug héðan til Bandaríkjanna eða Kanada samdægurs. Þessi hópur þarf hins vegar að sækja farangur við komuna til Íslands og innrita sig á ný. Og þar með eru þeir taldir sem ferðamenn á Íslandi, bæði á leiðinn út og líka heim, þó þeir hafi kannski aldrei farið út fyrir flugstöðina. Fimmta skýringin kann svo að vera sú að dvalartími pólskri ferðamanna sé að styttast og hótelnæturnar verða þá færri.