Icelandair til Dublin

Samkeppnin um farþega milli Íslands og Írlands harðnar með tilkomu fimmtugasta áfangastaðar Icelandair.

Frá Dublin. Mynd: Icelandair

Bretlandsflug Icelandair hefur stóraukist síðustu ár og býður félagið upp á reglulegar ferðir til sex breskra flugvalla auk Belfast á N-Írlandi. Íslenska flugfélagið hefur hins vegar ekki flogið til Írlands en á því verður breyting þann 8. maí á næsta ári þegar Icelandair hefur reglulegt flug til Dublin. Í boði verða sex ferðir í viku allt árið um kring og kosta ódýrustu farmiðarnir rétt um 14 þúsund krónur samkvæmt athugun Túrista.

„Dublin er ágætlega þekkt borg meðal Íslendinga og oft komið til álita hjá Icelandair að hefja beint áætlunarflug þangað. Með stækkun leiðakerfis okkar á undanförnum árum og einkum mikilli fjölgun áfangastaða í Norður-Ameríku sjáum við nú tækifæri til að bæta borginni við hjá okkur, enda mun hún þétta og styrkja tengiflugið til og frá Bandaríkjunum og Kanada“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu. Með þessari viðbót verða 30 áfangastaðir í Evrópu og 20 í Norður-Ameríku í leiðakerfi félagsins.

Í dag er WOW air eitt um flugið héðan til Dublin en félagið flýgur einnig til Cork á Írlandi en þær ferðir leggjast af í vetur.