Innanlandsflugið hér á landi ekki alltaf það dýrasta

Fargjöld í flugi innanlands hafa verið til brennidepli undanfarið en eins og verðsamanburður Túrista sýnir þá er það ekki bara á Íslandi sem innanlandsflugið getur verið dýrara en millilandaflug.

flugvel innanlands isavia
Mynd: Isavia

Ódýrustu flugmiðarnir frá Höfn til Reykjavíkur um þarnæstu helgi kosta 42.300 krónur en 40.805 kr. ef flogið er frá Egilsstöðum. Sá sem ætlar fljúga til Edinborgar frá Kirkwall í Skotlandi borgar líka rétt um 40 þúsund krónur fyrir miðann á meðan íbúi Frøde í Noregi þarf að greiða nærri 5 þúsund krónum meira fyrir flugið til Óslóar 13. til 15. október. Þeir sem bóka flug með svona stuttum fyrirvara til höfuðborganna frá Gotlandi, Røros eða Jyvaskyla borga hins vegar helmingi minna eða tæpar 20 þúsund krónur. Þetta sýnir verðkönnun Túrista þar sem borin eru saman fargjöld á sex flugleiðum hér á landi og átta í Skotlandi, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi á mismunandi tímabilum í vetur.

Á öllum þessum flugleiðum, nema í fluginu milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, er flugtíminn á bilinu 40 til 70 mínútur og voru dagsetningar í könnuninni valdar af handhófi í kringum helgar, á virkum dögum og yfir næstu jól og páska. Niðurstaðan leiðir í ljós að meðalverðið er langhæst í flugi til Reykjavíkur frá Höfn og Húsavík en flugfélagið Ernir heldur úti áætlunarferðum á milli þessara staða. Þar á eftir koma Edinborgarflug frá Kirkwall og Stornoway og fimmta dýrasta innanlandsflugið er milli Frøde og Óslóar. Þar á eftir kemur stysta flugleiðin, frá Eyjum til höfuðborgarinnar, en þangað tekur innan við hálftíma að fljúga og verð á mínútu þar langhæst eins og sjá má á neðstu töflunni. Áætlunarferðir Air Iceland Connect koma svo í næstu sætum en innanlandsleiðir Finnair eru þær ódýrustu. Þess ber að geta að innritaður farangur fylgir ekki ódýrstu fargjöldum þessara tveggja flugfélaga því hjá Air Iceland Connect þarf að borga 3.200 krónur fyrir töskuna, báðar leiðir, en um 2.500 krónur hjá Finnair.

Í Skotlandi fá íbúar á ákveðnum svæðum styrki sem geta numið allt að helmingi af verði flugmiðans. Þrátt fyrir þann afslátt borga íbúar Kirkwall og Stornoway álíka hátt meðalverð og er í boði í áætlunarflugi Finnair til Helsinki frá Kuopio og Jyvaskyla. Í dæmunum hér að neðan er miðað við flug báðar leiðir og er meðalverð reiknað út frá fargjöldunum og þeim sex dagsetningum sem kannaðar voru.